• !!Matis_logo

Matís er með starfsemi um allt land

28.1.2011

Frá upphafi hefur Matís byggst á neti starfsstöðva um allt land. Starfsstöðvar eru nú 9 talsins, að höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík meðtöldum og eru starfsmenn þeirra tengdir öllum fagsviðum fyrirtækisins. Nýjasta starfsstöðin er á Flúðum en hún var sett á fót í árslok 2010.

Áherslur starfsstöðvanna eru fjölbreyttar, endurspegla vítt starfssvið Matís og faglega þekkingu innan fyrirtækisins. Að sama skapi taka starfsstöðvarnar einnig mið af nærsamfélaginu á hverjum stað og þeim þörfum sem þar eru. Þannig eru starfsstöðvar Matís á Ísafirði og í Vestmanneyjum í tveimur af stærri sjávarútvegsstöðum landsins, hjá Matís á Höfn í Hornafirði hefur mikið starf verið unnið með humarframleiðendum og á Sauðárkróki er líftækni lykillinn að samstarfi við heimaaðila í matælavinnslu. Mælingaþjónustan í Neskaupstað er mikilsverð fyrir bæði framleiðslufyrirtæki og opinbera eftirlitsaðila á heilbrigðissviði á Austurlandi og hjá Matís á Akureyri hefur hefur byggst upp mikil rannsóknarþekking í fiskeldi. Loks er að geta matarsmiðjanna þriggja sem Matís hefur síðustu ár byggt upp á Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum og nú á Flúðum. Þar eru opnaðir möguleikar margra áhugasamra matvælaframleiðenda heima í héraði og þeim hjálpað til að láta draum um framleiðsluvörur og atvinnunýsköpun verða að veruleika.

Með starfi út um landið undirstrikar Matís vilja fyrirtækisins til að vinna með aðilum heima í héröðunum að fjölbreyttum verkefnum sem treyst geta atvinnulíf, aukið nýsköpun og fjölgað störfum. Stefna Matís er að á komandi árum efli fyrirtækið þessa áherslu enn frekar um allt land.

Nánari upplýsingar um starfsstöðvar Matís má finna hér.


Fréttir