• EcoFishMan

Verða hugmyndir Íslendinga mikilvægur þáttur í endurskoðaðri fiskveiðistjórnun ESB?

9.3.2011

Nú rétt í þessu var að ljúka fyrsta fundinum í nýju og umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem Evrópusambandið hefur ákveðið að styrkja til þriggja ára, EcoFishMan.

Á fundinum hefur m.a. verið rætt um hvort sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins hafi skilað þeim árangri sem ætlast var til. Nægir að nefna að hátt í 90% fiskistofna í lögsögu ESB-ríkja eru ofveiddir og þriðjungur stofnanna er í útrýmingarhættu vegna þess að þeir ná ekki að endurnýjast. Brottkast er stórfellt vandamál, til dæmis er áætlað að 30-55% þorskafla úr Norðursjó sé fleygt fyrir borð.

Evrópusambandið væntir þess að í EcoFishMan verkefninu verði þróuð ný aðferðafræði sem nýtist við breytingar og umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi sínu.

Í framhaldi af þessum upphafsfundi verður lögð er áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla.  Eitt af markmiðum EcoFishMan verkefnisins er að greina það sem vel hefur tekist í íslenskri fiskveiðistjórnun og miðla þeirri reynslu áfram. Jafnframt því er horft til meira samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum.

Meðal íslenskra aðila, sem leitað verður til vegna faglegrar þekkingar eru  Fiskistofa, Samtök fiskvinnslustöðva, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnunin, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Landssamband smábátaeigenda og nokkur íslensk fyrirtæki sem framleiða tæknibúnað fyrir sjávarútveginn, svo sem Trackwell, Vaki og Marel.

Þeir sem komu að þessum fyrsta fundi voru m.a. aðilar frá Matís, Eurofish (DK), CETMAR (ES), The Bitland Enterprise (FO), Háskóla Íslands, National Research Council / Institute of Marine Sciences (IT), Nofima Marin (NO), University of Tromsø (NO), Centro de Ciências do Mar (PT), IPIMAR (PT), MAPIX technologies Ltd (UK), Marine Scotland Science (UK) og Seafish (UK).

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.

Frétt frá fréttastofu Stöðvar 2 frá fundinum má finna hér.

EcoFishMan Kick-off Meeting 2011


Fréttir