Matís og Landssamband smábátaeigenda halda námskeið um aflameðferð fyrir smábátasjómenn

12.4.2011

Landssamband smábátaeigenda og Matís efna á næstu dögum til námskeiða um bætta aflameðferð.  Þar munu sérfræðingar Matís halda fyrirlestra og kynna nýjustu vísindin í meðferð afla, hvernig skal umgangast hann þannig að hæsta verð fáist við sölu hans og neytendur verði ánægðir með gæðin.

Afli smábáta er ferskasta hráefni sem völ er á, en til að tryggja enn betur að fiskvinnslan og neytendur fái sem bestan fisk í hendurnar er mikilvægt að smábátasjómenn þekki vel hvaða þættir hafa helst áhrif á gæðin.

Afli smábáta vegur þungt í heildaraflamagni og aflaverðmæti landsmanna.  Bátar í þessum útgerðaflokki veiddu til dæmis rúmlega 75 þúsund tonn á kvótaárinu 2009/10 að verðmæti 19,1 milljarðar króna og er áætlað að þessi afli hafi skilað um 38 milljörðum króna til þjóðarbúsins í útflutningsverðmætum.

Sökum þess að útgerðamunstur og aðstaða um borð í smábátum er öðruvísi en hjá stærri bátum þá eru helstu áhersluatriði er snúa að aflameðferð sértæk fyrir smábátaflotann.  Af þeim sökum mun Matís ásamt Landssambandi smábátaeigenda standa fyrir námskeiðum víðsvegar um landið þar sem kennd verða ýmiss grundvallaratiði er snúa að aflameðferð.  Námskeiðin verða á eftirtöldum stöðum:

  • Reykjavik miðvikudaginn 13. april kl 20:00 að Vínlandsleið 12 (Matís) 
  • Siglufjörður fimmtudaginn 14. april kl 17:00 í Allanum
  • Hellissandur fimmtudaginn 14. april kl 20:00 á Hótel Hellissandi (mynd)
  • Bolungarvík þriðjudaginn 19. apríl kl 20:00 í Félagsheimilinu
  • Djúpivogur  miðvikudag 20. apríl kl 20:00 í Hótel Framtíð
  •  Önnur námskeið auglýst síðar 

Námskeiðin eru opin öllum og er þátttaka gjaldfrjáls.

Á síðunni, www.alltummat.is/fiskur/smabatar, verða birtar ýmsar upplýsingar um aflameðferð sem eiga sérstak erindi til smábátasjómanna, ásamt því sem birtur verður listi yfir þá sem setið hafa námskeiðin.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.


Fréttir