• Hraðfrystihúsið Gunnvör

Hraðfrystihúsið Gunnvör - mikilvægt samstarf!

1.9.2011

Hraðfrystihúsið Gunnvör er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Vestfjarða og rekur bæði öfluga útgerð og fiskvinnslu í landi, auk þess að hafa náð talsverðum árangri í uppbyggingu þorskeldis. Fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við Matís og nálægðina við starfsstöð Matís á Ísafirði.

Framfarir sýnilegar í þorskeldinu
„Við höfum notið góðs af starfsstöð Matís á Ísafirði á undanförnum árum í ýmsum verkefnum, fyrst og fremst hvað varðar vinnslu- og eldistengd verkefni,” segir Kristján Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri hjá Hraðfrystihúsinu
Gunnvöru.

„Ef við horfum á vinnsluþáttinn þá snúa verkefnin sem við höfum unnið með Matís til að mynda að þróun á nýjum vinnsluaðferðum, vinnslutækni og þróun nýrra afurða. Í þorskeldinu höfum við líka nýtt okkur þekkingu og aðstöðu Matís til að hjálpa okkur en vissulega hafa margir fleiri komið að því verkefni með okkur. Þorskeldið er langhlaupsverkefni sem þumlungast áfram og ekkert sem bendir til annars en það haldi áfram á sömu braut. Við erum að sjá ýmis jákvæð skref í þorskeldinu og því er hægt að tala um framfarir. Hins vegar spila mjög margir þættir inn í árangur í þessari grein, s.s. fóðrun, kynbætur, sjúkdómar, markaðsmál, vöruþróun og fleira mætti telja. Hvað varðar marga af þessum þáttum getum við leitað til Matís að vinna með okkur,” segir Kristján.

„Staðsetning starfsstöðvar Matís hér á Ísafirði skiptir okkur máli og í raun fyrir báða aðila í svona samstarfi. Boðleiðirnar eru styttri og árangur skilar sér betur. Og með nálægðinni í samstarfsverkefnum er líka líklegra að nýir fletir og nýjar hugmyndir komi fram. Við komum því til með að nýta okkur áfram þjónustu starfsstöðvar Matís líkt og verið hefur. Með þeim fyrirvara
þó að sú óvissa sem er í sjávarútveginum og hefur verið að undanförnu dregur úr möguleikum okkar til að efna til nýrra verkefna á sviði rannsókna og þróunar. Það er staðreynd,” segir Kristján Jóakimsson.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri Vinnslu, virðisaukningar og eldi.


Fréttir