• Aurora skyr með þara ofl. góðu!

Sjávarskyr? Íslendingar fá fyrstir að bragða!

20.9.2011

Vinnur ný alíslensk skyrafurð til verðlauna á Ecotrophelia Europe, sem vænlegasta og vistvænasta nýsköpunarhugmyndin á matvælasviði árið 2011?

Í samstarfi við Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fleiri aðila hafa Jón Trausti Kárason, Kjartan Trauner, Jökull Vilhjálmsson og Andri Freyr Þórðarson þróað vöru sem sigraði í íslensku Ecotrophelia keppninni og eru þeir félagar því á leið í stóru keppnina sem fram fer í Köln 9. og 10. október nk.

Varan sem um ræðir er skyr sem inniheldur þara af tegundinni Marínkjarni úr Breiðafirði, en við hugmyndavinnu vöruþróunarinnar var þari útgangspunkturinn.

Auk Marínkjarnans inniheldur varan lífræna mjólk frá BioBú, íslensk aðalbláber, lífrænt blómahunang og ennfremur inniheldur hún engan viðbættan sykur né aukefni!

Öll vitum við um kosti skyrneyslu. Með þeim hráefnum sem nú eru sett í skyrið fær varan á sig alveg nýja hollustumynd. Andoxunareiginleikar bláberja eru þekktir og eins inniheldur þari fullt af vítamínum og steinefnum auk fjöldann allan af andoxunarefnum. Lífræna blómahunangið gefur vörunni svo mátulega sætan keim.

Skyrið verður kynnt og fólk getur smakkað á Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi laugardaginn 24. september, kl. 13-15.

Ekki missa af þessu tækifæri!

Nánari upplýsingar veitir Jón Trausti Kárason í síma 663-7904 eða jon.trausti@matis.is, Guðjón Þorkelsson eða Steinar B. Aðalbjörnsson.


Fréttir