• iStock_000015515320_Lysi_Large

Matís leggur sitt af mörkum gegn lítilli neyslu á D-vítamíni

23.11.2011

Matís, í samstarfi við Lýsi hf., leggur sitt af mörkum til aðstoðar starfsmönnum fyrirtækisins við að viðhalda góðri beinheilsu.

Á hverjum morgni gefst starfsmönnum Matís tækifæri til að fá sér Omega-3 +D-vítamín frá Lýsi hf. og tryggja sér þannig 10 míkrógrömm af D-vítamíni í einni töflu. Ekki er vitað til þess að fyrirtæki á Íslandi hafi aðstoðað starfsmenn sína með þessum hætti.

Eins og hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum þá glíma margir Íslendingar við D-vítamínskort á einhverju stigi, hið minnsta yfir vetrarmánuðina þegar sólarljóss nýtur takmarkað við. Eins og flestir vita er D-vítamín nauðsynlegt fyrir líkamann til að nýta kalk úr fæðunni. Án hæfilegs magns af D-vítamíni og kalki verður beinheilsa okkar ekki eins og hún best getur orðið. Öll hreyfing, þar sem við berum okkar eigin líkamsþyngd, hjálpar til við að halda beinheilsu góðri en við þurfum líka ofangreind efni til þess að hámarka beinheilsu og koma í veg fyrir beinþynningu og beinkröm.

 Morgunmatur starfsmenn
Starfsmenn Matís í morgunmat

D-vítamín er ekki í mörgum matvælum sem Íslendingar neyta að staðaldri. Helst er D-vítamín að finna í feitum fiski, fjölvítamíntöflum og öðrum fæðubótarefnum og svo í lýsi. Þegar fisks er neytt sem inniheldur D-vítamín þá dugar það magn af D-vítamíni oft eingöngu fyrir þann dag sem fisksins er neytt. Því er nauðsynlegt að skoða hvernig hægt er að ná í hæfilegt magn af D-vítamín alla daga og þá hugsanlega með öðrum leiðum en eingöngu með fiskneyslu.

Eins og staðan er í dag eru 10 míkrógrömm það magn sem ráðlagt er að neyta á hverjum degi en ráðleggingar munu sennilega breytast á næstu mánuðum og mun ráðlagður dagskammtur væntanlega hækka.

Ef og þegar stjórnvöld boða til almennrar D-vítamínbætingar í matvæli mun Matís endurskoða hvort þörf er á að bjóða upp á þessa vöru til starfsmanna sinna. Þangað til leggur fyrirtækið sitt af mörkum og tryggir að starfsmenn Matís fái a.m.k. hluta af því magni D-vítamíns á degi hverjum sem nauðsynlegt er fyrir góða beinheilsu.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri hjá Matís í síma 858-5111.Fréttir