• Logo Grímur Kokkur

Íblöndun ómega-3 fitusýra í fiskibollur til aukningar á næringargildi

26.4.2012

Verkefninu Auðgaðir sjávarréttir sem unnið var í samvinnu Matís og Gríms kokks í Vestmannaeyjum og Iceprotein á Sauðárkróki er nú að ljúka.

Þar voru þróaðar nokkrar frumgerðir af vörum úr íslensku sjávarfangi sem í hefur verið bætt lífefnum úr íslensku sjávarfangi eins og þörungaþykkni með skilgreinda lífvirkni, hýdrólysötum til að auka próteininnihald og lýsi til að auka ómega-3 fitusýrur.
Niðurstöðurnar sýna að vel er hægt að auka magn ómega-3 fitusýra í fiskibollum án þess að það komi niður á bragðgæðum. Sama má segja um íblöndun þörungadufts og einnig tókst vel að auka próteinmagn í fiskbollunum. Sem tæki í virkri og farsælli  vöruþróun með þátttöku neytenda  voru fengnir tveir rýnihópar fólks til að  fá innsýn í upplifun og vitneskju neytenda um auðgun, auðgaða sjávarrétti, neyslu þeirra á sjávarréttum og fæðubótarefnum og heilsutengdan lífsstíl.

Neytendakannanir voru framkvæmdar til að kanna smekk neytenda fyrir frumgerðunum í samanburði við hefðbundna vöru sem þegar er á markaði.  Upplýsingar um lífvirku efnin og virkni þeirra hafði áhrif á hvernig fólki geðjaðist að vörunum. Áhrif upplýsinga voru háð ýmsum þáttum, eins og viðhorfum til heilsu og matar, viðhorfum til innihaldsefna í þeirri vöru sem prófuð var, sem og þáttum eins og aldri og menntun.

Neytendakönnun á netinu sem yfir 500 manns tóku þátt í  sýndu að fólk er almennt jákvæðara gagnvart auðgun ef um er að ræða þekkt hollustuefni á borð við ómega-3. Einnig að betra er að veita upplýsingar um virkni þó að um þekkt efni sé að ræða, þar sem það eykur á jákvæða upplifun fólks af vörunni. Auðgun með þara virðist einnig vera raunhæfur kostur þar sem upplýsingar um notkunargildi þarans í vöru voru gefnar og svipað má segja varðandi fiskiprótein. Þessar vörur höfða almennt frekar til fólks sem leggur áherslu á hollustu matvæla, sem er nokkuð stór hópur samkvæmt þessum niðurstöðum. Almennt má álykta út frá þessum niðurstöðum auðgun sjávarrétta sé raunhæfur möguleiki en huga þarf að merkingum og upplýsingagjöf til neytenda.

Í þessu verkefni skapaðist reynsla á Matís sem mun verða þróuð áfram og nýtast öðrum fyrirtækjum við vöruþróun og markaðssetningu á markfæði þar sem óskir neytenda verða hafðir að leiðarljósi. Neytendakannanir sýndu að það er mjög mikilvægt hvernig markaðssetning slíkra vöru mun fara fram til að ná til valinna neytendahópa sem hafa áhuga á slíku markfæði.  Stigið hefur verið framfaraskref þar sem lífefnum með staðfesta virkni hefur verið bætt í tilbúnar neytendavörur.  Mjög mikilvægur afrakstur þessa verkefnis er að á  árinu 2011 tókst að afla styrks frá norræna sjóðnum Nordic Innovation, NICe, til að halda áfram stærra verkefni á þessu sviði og stuðla þannig að auknum verðmætum sjávarfangs og lífefna úr hafinu.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.


Fréttir