• 3X_TECH

Fá styrk til að hanna blóðgunarbúnað

4.7.2012

Fyrirtækið 3X Technology á Ísafirði vinnur nú að rannsóknarverkefni um blóðgun á línufiski í smábátum og er verkefnið unnið í samvinnu við Matís og útgerðaraðila.

Matís leggur kapp á að aðstoða matvælaiðnaðinn í landinu um aukin verðmæti, bætta nýtingu og betri lýðheilsu, með ofangreindu verkefni er unnið að aukningu verðmæta með betri aflameðhöndlun sem opnar leiðir fyrir betri nýtingu. Þar sem matvælaiðnaðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í kringum landið er Matís með starfsemi víða um land þ.m.t. á Ísafirði. Starfstöð Matís á Ísafirði hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að brúa bilið á milli atvinnulífs og vísindasamfélags. Á Ísafirði er nú í gangi samstarf 3X, smábátaútgerða og Matís og nýtur stöðvarstjóri Matís á Ísafirði stuðnings annarra sérfræðinga og sérhæfðra starfsmanna Matís við lausn verkefnisins.

Ofangreint verkefni er dæmi um hvernig rannsóknir Matís, sem í þessu tilfelli snúast um vinnu í þágu 3X og í samstarfi við smábátaútgerðir, fela í sér ávinning fyrir landsmenn alla. Það er með rannsóknunum sem hægt er aðbúa í haginn fyrir þróun sem viðhaldi gæðum afla. Meðhöndlun hráefna skipti miklu um möguleika til framleiðslu fjölbreyttra afurða.

„Útgerð línubáta er sérstaklega mikilvæg sjávarbyggðum á Vestfjörðum og hefur verið ómetanleg lyftistöng fyrir byggðaþróun þar í gegnum tíðina,“ segir Shiran Þórisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Fyrirtækið 3X Technology á Ísafirði vinnur nú að rannsóknarverkefni um blóðgun á línufiski í smábátum, og fékk nýverið styrk úr Vaxtarsamningi Vestfjarða, sem er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins og Atvest. 3X Technology vinnur verkefnið í samvinnu við Matís og útgerðarðila, sem þróað hafa nýjan búnað til blóðgunar um borð í línubátum, en búnaðurinn nefnist „Rotex“. Shiran segir að á síðari tímum hafi verið bent á það óspart, að veira þessara báta séu mun vistvænni en annarra útgerðarflokka.

„Þrátt fyrir hina mörgu kosti smábátaútgerðar hefur hún einnig sína ókosti. Sérstaklega eru þekkt ýmis vandamál er snúa að því að viðhalda gæðum hráefnisins eftir að það kemur um borð, en þar sem vinnupláss um borð í þessum bátum er af skornum skammti hefur vantað nokkuð á að meðferð aflans um borð væri sem skyldi,“ segir Shiran, og segir það ekki síst eiga við hvað varðar blæðingu en vandasamt hefur reynst að koma fullnægjandi búnaði um borð í smábáta. „Sökum þessara gæðavandamála er ímynd smábátaútgerðar ekki eins jákvæð og hún annars hefur burði til að vera, en í raun er varla hægt að hugsa sér ferskara hráefni en krókaveiddan fisk,“ segir Shiran.

Þrátt fyrir að rannsóknir bendi til að rétt blóðgun skili meiri verðmætum á þorskafla hefur ekki verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti. Því var talið mikilvægt að sýna fram á með rannsókn að nýr búnaður henti til notkunar um borð í minni línubátum og skili betri gæðum á afla.
„Verkefnið, sem styrkt er af Vaxtarsamningi Vestfjarða og AVS sjóðnum, mun svara þeirri spurningu hvort það sé betra að láta afla smábáta blæða út í „Rotex“ búnaðinum sem 3X hafa hannað miðað við hefðbundna aðferð smábáta, eða að láta þá blæða út í ískrapa í fiskikörum. Við teljum það betra með „Rotex“ búnaðinum heldur en að gera þetta með hefðbundnum aðferðum. Verkefnið snýst um að svara því,“ segir Shiran.

Töluvert er í húfi fyrir 3X Techology sem áætlar að framleiðsla í þessum búnaði geti skilað umtalsverðum tekjum í framtíðinni. Á fimmta hundrað smábáta höfðu aflamark eða krókaaflamark 1. september 2011 og ekki vitað að nokkur þeirra hafi blóðgunarbúnað um borð til að tryggja góða blóðgun á þorsk og ýsu. Ef hægt er að sýna fram á virkni búnaðarins má reikna með að umtalsverður fjöldi báta muni fjárfesta í slíkum búnaði. „Framleiðsla á „Rotex“-búnaði gæti skilað miklum tekjum fyrir 3X Technology þó mesti ávinningurinn sé með aukinni verðmætasköpun afla smærri línuskipa.“ segir Shiran.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri á Ísafirði.

Ofangreind frétt að hluta birtist fyrst á vef Bæjarins besta á Ísafirði (www.bb.is, gudmundur@bb.is).


Fréttir