• UNA skincare

Íslenskt sjávarfang beint í andlitið!

4.7.2012

Sprotafyrirtækið Marinox framleiðir nú húðkrem eftir áralanga rannsókna- og þróunarvinnu á efnum sem finna má í íslenskum sjávarþörungum og innihalda mjög mikla líf- og andoxunarvirkni.

UNA skincare eru háþróuð íslensk húðkrem sem eru nýkomin á markað. Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Marinox, sem er að hluta til í eigu Matís, framleiðir þessi krem eftir áralanga rannsókna- og þróunarvinnu. Um er að ræða bæði endurnærandi dagkrem og uppbyggjandi næturkrem sem innihalda þessi einstöku lífvirku efni.

Sjávarþörungar eru mjög vannýtt auðlind á Íslandi, en þeir innihalda aragrúa af heilsusamlegum lífefnum sem hægt er að nýta í margvíslegar afurðir. Fyrirtækið Marinox hefur þróað náttúrulega aðferð til að einangra og framleiða virk efni úr þessari einstöku íslensku auðlind og þar með tryggja hámarksvirkni þeirra. Rannsóknir sýna fram á mjög jákvæð áhrif náttúrulegra efna úr sjávarþörungum á húðina. Lífvirku þörungaefnin í UNA skincare kremunum innihalda m.a. mikið af mjög öflugum náttúrulegum andoxunarefnum, lífvirkum fjölsykrum, amínósýrum, vítamínum og steinefnum. Þessi efni m.a. berjast gegn frjálsum hvarfeindum (e. free radicals) og húðöldrun, draga úr bólgum og roða, auk þess að bæta teygjanleika húðarinnar og veita henni raka.

Samspil hafs og vísinda hjálpar þannig til við að varðveita náttúrulega fegurð húðarinnar!

UNA kremin innihalda einnig önnur öflug virk efni sem koma í veg fyrir og draga úr fínum línum og hrukkum, auk þess að endurnæra og byggja upp húðina. Kremin, sem innihalda hátt magn náttúrulegra og lífrænna innihaldsefna, eru án litarefna, ilmefna og parabenefna. Umfangsmiklar neytendaprófanir hafa átt sér stað þar sem yfir 90 konur prófuðu kremin. Sýndu þessar prófanir fram á framúrskarandi árangur kremanna. Meirihluti þeirra sem tóku þátt í langtímaprófi á snyrtivörunum sáu marktækan jákvæðan mun á húð sinni og minnkun á fínum línum og hrukkum. Yfir 90% þeirra sem tóku þátt myndu hiklaust mæla með kreminu við aðra. UNA skincare kremin eru komin í sölu á 32 útsölustöðum út um allt land. Frekari upplýsingar um þessi einstöku krem má finna á www.unaskincare.com.

Marinox er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki til húsa að Vínlandsleið 14, 113 Reykjavík. Rannsókna- og þróunarvinna lífvirku efnanna og kremanna hefur farið fram í náinni samvinnu við Matís í Reykjavík og á Sauðárkróki.

Nánari upplýsingar veitir dr. Hörður G. Kristinsson, framkvæmdastjóri Marinox (hordur@unaskincare.com eða 858-5063).

UNA skincare


Fréttir