• Logo BfR

Forseti leiðandi stofnunar í Evrópu á sviði áhættumats í matvælum í heimsókn á  Íslandi

18.7.2012

Dr. Andreas Hensel forseti BfR (Federal Institute for Risk Assessment) var fyrir stuttu í heimsókn á Íslandi en BfR er ein öflugasta stofnun Evrópu á sviði áhættumats og matvælaöryggis.

Tilgangur heimsóknar Dr. Hensel til Íslands var m.a. að skrifa undir samstarfssamninga fyrir hönd BfR við Matís annars vegar og Matvælastofnun hins vegar. Samhliða því var endurnýjaður samstarfssamningur Matís og Matvælastofnunar.

Dr. Andreas kynnti hlutverk og starf BfR fyrir ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og starfsmönnum Matís og Matvælastofnunar. Mjög áhugavert var að heyra hvernig BfR sinnir hlutverki sínu fyrir þýska ríkið í áhættumati og matvælaöryggi og margt sem Íslendingar geta lært af nálgun Þjóðverja í þessum málaflokkum.

Hjá BfR starfa að meðaltali um 750-800 manns og hlutverk stofnunarinnar er m.a. áhættumat m.t.t. heilsu fólks, matvælaöryggis, erfðabreyttra matvæla ofl.

BfR bar hitann og þungann af viðbrögðum við svonefndri EHEC sýkingu á sl. ári en sýkingin var af völdum E.coli og var í upphafi talin eiga uppruna sinn í gúrkum. Síðar kom í ljós, m.a. fyrir tilstuðlan BfR, að uppruninn var í baunaspírum.  Þúsundir manna veiktust alvarlega af völdum sýkingarinnar. 

Samstarf við BfR og aðgangur að sérfræðiþekkingu stofnunarinnar á sviði áhættumats eru mjög mikilvæg fyrir starfsemi Matís. Eitt skilgreindra hlutverka Matís er að stuðla að bættu öryggi matvæla, en Matís  hefur á að skipa starfsfólki með sérþekkingu á því sviði, þ.m.t. varðandi áhættumat, matarsýkingar og matarsjúkdóma.

Eftirfarandi mynd er frá undirskrift samstarfssamninga.

 SLR Matis BfR MAST samningur
Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, dr. Andreas Hensel, forseti BfR og Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.


Fréttir