• www.fauna.is - PC031grasleppa

Mikil tækifæri geta skapast í mörgum sjávarbyggðum við framleiðslu og útflutning á grásleppu

20.7.2012

Til að bæta við þekkingu á þessari vannýttu tegund sótti Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði ásamt Matís um styrk til AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi fyrir verkefnið „Bætt nýting grásleppuafurða“.

Með reglugerð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, nr 1083/2010, er gert skylt að koma með allan grásleppuafla að landi eftir 2011. Það þurfti því að bregðast hratt við og finna markaði fyrir grásleppuna sjálfa, en aðeins hrognin höfðu verið hirt og restinni fleygt í sjóinn. Mikið frumkvöðlaframtak hafði átti sér stað í nokkur ár og er rétt að nefna Landssamband smábátaeigenda og útflutningsfyrirtækið Triton í því samhengi, sem í sameiningu byggðu upp markað fyrir grásleppu á Kínamarkaði, með hvelju og öllu saman. Rétt er að taka fram að hrognin eru um 30% af þyngd grásleppu en hveljan með haus og hala um 55% og þar af eru flökin aðeins 14% af heildarþyngd hennar.

Til mikils var að vinna og ljóst að mikil verðmæti lágu í þessari vannýttu fisktegund og mikil tækifæri myndu skapast í mörgum sjávarbyggðum við framleiðslu og útflutning á grásleppu: Auknar tekjur fyrir sjómenn og útgerð ásamt því að slæging grásleppunnar færðist nú að mestu í land, en það skapaði mikla vinnu hjá aðilum í framleiðslu. Slæging fyrir Kínamarkað er ólík hefðbundinni slægingu og kallar á flóknari handbrögð en það gerir kröfur um betri vinnuaðstæður sem ekki eru fyrir hendi um borð í litlum fiskibátum.

Meðalframleiðsla Íslands á grásleppuhrognum 2002 - 2011 eru 1.337 tonn á ári til útflutnings og var FOB verðmæti framleiðslunnar 2011 um 2,55 milljarðar króna, en ári áður hafði hún farið á 3,84 milljarða. Gera má ráð fyrir að heildarafli grásleppu sé um fimm þúsund tonn ári, og heildarveiði hrognkelsa því eitthvað rúmlega það.

Til að bæta við þekkingu á þessari vannýttu tegund sótti Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði ásamt Matís um styrk til AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi fyrir verkefnið „Bætt nýting grásleppuafurða“. Í verkefninu voru tekin sýni frá veiðisvæðum frá Skjálfanda og vestur og suður úr alla leið í Faxaflóa. Þannig fékkst samanburður á grásleppu frá ólíkum veiðisvæðum og eins upplýsingar um efna- og næringarinnihald ásamt upplýsingum um aðskotaefni eins og þungmálma. Þetta eru grundvallarupplýsingar til að selja vöru og finna henni nýja og spennandi markaði. Rannsóknir voru unnar hjá rannsóknarstofum Matís við Vínlandsleið í Reykjavík.

Til að bæta meðhöndlun við slægingu og standast nýjar kröfur sem Kínamarkaður gerir tóku Landsamband smábátaeigenda og Matís sig saman um gerð einblöðungs sem dreift var til allra grásleppuútgerða. Blöðungurinn var upplýsandi með myndum og skýringum á réttum handbrögðum.

Matís í samstarfi við Fiskvinnsluna Drang á Drangsnesi gerði úttekt á gæðamálum landaðrar grásleppu þar sem meðal annars var fylgst með hitastigi vörunnar frá upphafi vertíðar til loka. Jafnframt var samvinna við Fiskistofu um að fylgjast með hitastigi í lönduðum afla. Þegar líða tók á vertíðina og sjávarhiti hækkaði var nánast regla að sjómenn notuðu ís við kælingu á afla.

Matís gerði síðan úttekt í samvinnu við AtVest og með stuðningi AVS á veiðum og vinnslu grásleppu á Vestfjörðum. Tvær skýrslur voru gefnar út af Matís, önnur um veiðar og hin um stöðu vinnslu á Vestfjörðum, en eins og áður segir liggja mikil atvinnutækifæri í aukinni nýtingu á grásleppu.

Í verkefni Matís og Odda, sem styrkt er af AVS, var gert ráð fyrir þróun vöru fyrir innanlandsmarkað. Í ljósi góðs árangurs við útflutning, og með þá staðreynd í huga að flakanýting er aðeins um 14%, var ekki talið rétt að eyða mikilli orku í þann verkþátt. Með nýtingu flaka innanlands sætu menn uppi með hvelju og haus sem er megin hluti hrognkelsis, en Kínverjar nýta allan fiskinn. Í samvinnu við framleiðendur og útflytjendur var því afráðið að skoða frekar hvað þyrfti að gera til að sækja frekar fram á Kínamarkaði, opna nýja möguleika og hækka söluverð til framtíðar.

Það er aðdáunarvert hvað sjómenn hafa tekið þessum breytingum vel með því að yfirfæra vinnubrögð til áratuga og aðlaga sig að breytingum. Þó það verð sem í boði hefur verið fyrir grásleppuna sé ekki hátt hafa sjómenn allir sem einn tekið framtakinu vel og lagt sig fram um að auka verðmæti aflans.

Landssamband smábátaeigenda hefur allt frá árinu 1989 verið í samstarfi við áhugasama útflytjendur, vinnsluaðila og síðast en ekki síst Matís við að þróa vinnsluaðferði og leita að markaði fyrir grásleppuna. Grásleppukarlar hafa fylgst með á hliðarlínunni með jákvæðu viðmóti, m.a. greiðslu í þróunar- og markaðssjóð LS sem notaður var vegna þessara mála.  Jarðvegur fyrir breytingum var því frjór og uppskeran ríkuleg eins og sjá má á yfirstandandi vertið með 300 milljóna auknu aflaverðmæti af grásleppuveiðum. Markaðsaðstæður eru ágætar þar sem ekki er hægt að anna eftirspurn Kínamarkaðar.

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Þórðarson, stöðvarstjóri Matís á Ísafirði.


Fréttir