• Örugg matvæli | Food safety

Áhætta og ávinningur við neyslu matvæla

7.9.2012

Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri efnarannsókna og áhættumats hjá Matís, hefur að undanförnu tekið þátt í Evrópuverkefni þar sem myndaður var þekkingarklasi um greiningu áhættu og ávinnings við neyslu matvæla.

Fulltrúar frá sjö Evrópulöndum tóku þátt í verkefninu sem er svokallað SAFEFOODERA verkefni sem var í flestum tilfellum fjármagnað úr rannsóknasjóðum viðkomandi landa. Þrátt fyrir að slíkur styrkur hafi ekki fengist hér á landi ákvað Matís að taka engu að síður að taka þátt í verkefninu með eigin fjármögnun.

Til þess að hægt sé að meta þá kosti og/eða galla sem fylgja neyslu ákveðinna tegunda af matvælum þarf að vera hægt að meta bein áhrif þeirra á heilsu fólks. Slíkt mat er einungis hægt að gera með áhættu- og ávinningsgreiningu. Greining áhættu og ávinnings er tiltölulega nýtt rannsóknarsvið og aðferðaþróunin er skammt á veg komin á sviði matvæla.

Helga segir að markmið þessa verkefnis hafi verið að nýta þekkingu og reynslu á áhættu- og ávinningsgreiningu sem byggð hafi verið upp á öðrum fræðasviðum, s.s. læknis- og lyfjafræði, örverufræði, umhverfisfræðum, félags- og hagfræði og aðlaga þær aðferðir að matvæla- og næringarfræði.

„Greining sem þessi nýtist meðal annars fyrir stjórnsýsluna við ráðgjöf um neyslu matvæla og hún beinir kastljósinu þannig að báðum þáttunum, þ.e. áhættu og ávinningi. Þetta er mjög mikilvægt því í mörgum tilfellum þá vega  ávinningsþættirnir við neyslu matvæla þyngra en áhættuþættirnir. Í þessu Evrópuverkefni höfum við í raun verið að meta hvert við erum komin á sviði matvæla- og næringarfræði og hvort hægt sé að nýta þekkingu af öðrum fræðasviðum til að þróa og bæta áhættu- og ávinningsgreiningu á sviði matvæla- og næringarfræði,“ segir Helga en starfi hópsins er lokið og birtast niðurstöður í janúarútgáfu ársins 2012 í vísindatímaritinu „Food and Chemical Toxicology“. Auk heldur er hægt að nálgast niðurstöðurnar á vefsvæðinu www.sciencedirect.com.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir.


Fréttir