• Hnottur

Alþjóðlegt samstarf

21.9.2012

Alþjóðlegt samstarf er mikilsverður þáttur í daglegu starfi Matís og hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt núna að eiga í samstarfi við erlenda aðila.

Samstarfið birtist í fjölbreyttum myndum. Einn hluti þess er samstarf við erlenda aðila að rannsókna- og vísindaverkefnum, í öðrum tilfellum er um að ræða verkefni þar sem erlendir aðilar kaupa rannsóknaþjónustu af Matís en í ársskýrslu Matís fyrir árið 2011 má lesa um nokkur vel valin verkefni sem Matís var þátttakandi í með erlendum aðilum árið 2011. Þá er ótalinn ýmiss samstarfsvettvangur á erlendri grundu, t.d. fundir og ráðstefnur, þar sem starfsfólk Matís hittir erlent fagfólk í sínum vísindagreinum. Að síðasttöldu eru á hverjum tíma allmargir erlendir fræði- og rannsóknarmenn og konur sem starfa hjá Matís, oft og tíðum allt árið um kring. Allt skilar þetta beinum ávinningi í uppbyggingu Matís en ekki síður aukinni þekkingu starfsmanna.

Í tækni nútímans verður stöðugt auðveldara að taka þátt í fjölþjóðlegu vísindastarfi og það nýtir Matís sér. Bæði eru í því fólgnir möguleikar til aukinnar sölu á rannsóknaþjónustu og þar með aukinna erlendra tekna fyrir fyrirtækið en um leið styrkist sá þekkingargrunnur sem Matís byggir sína þjónustu á fyrir innlenda viðskiptavini.

Ávinningur er þannig lykilorð um erlent samstarf, hvort sem horft er til Matís sem fyrirtækis, starfsmanna þess, viðskiptavina eða eigenda, þ.e. íslenska ríkisins.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.


Fréttir