Margir merkilegir fyrirlestrar á Sjávarútvegsráðstefnunni

11.11.2012

Sjávarútvegsráðstefnunni lauk núna í hádeginu.  Mjög margt áhugavert kom fram og voru einir fjórir starfsmenn Matís með erindi en auk þess var Sveinn Margeirsson forstjóri Matís með fundarstjórn og Anna Kristín Daníelsdóttir situr í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar.

Sarah Helyar hélt fyrirlestur um genarannsóknir og notkun þeirra í fiskeldi og Sigurjón Arason hélt erindi um hvað er tæknilega framkvæmanlegt þegar kemur að nýtingu aukahráefna um borð í fiskiskipum. Hólmfríður Sveinsdóttir hélt fyrirlestur sem vakti verðskulda athygli en erindi hennar fjallaði um tækifærin í vinnslu á aukahráefni. Að lokum á þessum fyrsta degi var erindi frá Matís um hvaða tækifæri það eru sem liggja í fullvinnslu á uppsjávarfiski en Guðmundur Stefánsson fór með þann fyrirlestur í fjarveru Vígfúsar Þ. Ásbjörnssonar, stöðvarstjóra Matís á Höfn í Hornafirði.

Matís var auk þess með bás þar sem þarapasta úr byggi var kynnt, UNA Skincare húðvörur (unaskincare.com) og Gunna á Rifi sem á og rekur Reykhöll Gunnu kynnti líka dásemtar reyktan ufsa sem hún hefur þróað í nánu samstarfi við Matís.

Gunna í Rifi hefur unnið við íslenskt sjávarfang í fjöldamörg ár. Hún er faglærð í meðhöndlun þess og íslenskt sjávarfang hefur verið og er eitt af hennar áhugamálum. Markmið umsækjenda er að styrkja stoðir fyrirtækis hennar, Reykhallar Gunnu, með auknu vöruúrvali og bæta markaðslegt útlit fyrirtækisins. Með því telja umsækjendur að hægt sé að auka umsvif fyrirtækisins sem mun nýtast nær umhverfi þess með auknum störfum á svæðinu og ekki síður styrkja samstarf frumkvöðla eins og Gunnu við fyrirtæki á svæðinu.

Verkefnið er þróun á nýrri vöru á íslenskumReykhöll Gunnu á Rifimarkaði, sætreyktum fisk, byggt á aldagamalli uppskrift indíána norður-Ameríku. Markmiðið er að þróa nýja vöru úr íslensku hráefni með áherslu á uppruna þess frá Snæfellsnesi. Hugmyndafræði verkefnisins er að búa til fullunna vöru með samstarfi á milli fyrirtækis í fullvinnslu og hráefnisframleiðanda. Með því er verið að auka virði hráefnis á svæðinu og um leið að búa til matarminjagrip fyrir ferðamenn á svæðinu og nýja vöru fyrir íslenskan neytendamarkað. Til þess að það gangi upp telja umsækjendur að jafnframt þurfi að bæta vörumerki og markaðsmál Reykhallar Gunnu.

Með verkefninu er verið að hvetja frumkvöðul eins og Gunnu til frekari afreka og gera fyrirtæki hennar kleift að skapa sér sess á meðal fyrirtækja á svæðinu. Framtíðarsýnin er sú að fullvinna fleiri sjávar- og jafnvel landbúnaðarafurðir undir merkjum Reykhallar Gunnu. Með þessu samstarfi er verið að leggja grunninn að nánara samstarfi fyrirtækjanna í framtíðinni varðandi vöruþróun og fullvinnslu. Fyrir hráefnisframleiðanda eins og Sjávariðjunna getur orðið ómetanlegt að vera í nálægð við sterkt fullvinnslufyrirtæki eins og ætlunin er að Reykhöll Gunnu geti orðið.

Afurð verkefnisins er ný vara unnin úr hráefni á svæðinu sem mun skila verðmætaaukningu og nýrri þekkingu. Í verkefninu verður til vinnsluferill fyrir nýja vöru; sætreyktan fisk. Slík vara er þekkt erlendis og hefur skapað sér fastan sess. Ákveðnir þættir þessarar framleiðslu eru ekki nægilega vel þekktir hér á landi til að skila samkeppnishæfri vöru en með verkefninu verður sú þekking til. Afurð verkefnisins er því nýtt vinnsluferli, ný þekking, ný vara og sterkara vörumerki á fullunni vöru frá Snæfellsnesi.

Með þessu samstarfsverkefni er verið að styðja við nýsköpun og vöruþróun hjá frumkvöðli sem vill efla vöruframboð, auka virði vöru og samkeppnishæfni sína. Með verkefninu er verið að auka umsvif og skapa fleiri störf í nánustu framtíð hjá Reykhöll Gunnu í Rifi.

Aðkoma Matís að verkefninu mun stuðla að yfirfærslu þekkingar á vinnsluferlum og meðhöndlun hráefnisins. Að sama skapi mun aðkoma Sjávariðjunnar að verkefninu efla  samstarf við Reykhöll Gunnu en ætlunin er að Sjávariðjan komi að hráefnismeðhöndlun fyrir reykingu og leggi hönd á plóg við aðstöðu fyrir þurrkun. Þannig mun verkefnið stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu í Snæfellsbæ. Samstarf fyrirtækjanna í verkefninu mun efla þekkingu Reykhallar Gunnu, auka framboð á vöru, efla vöruþróun og afla nýrrar þekkingar á sviði reykingar sem auka verðmæti hráefnis á svæðinu.

Alla dagskrá Sjávarútvegsráðstefnunnar má finna hér.


Fréttir