Allir út að grilla

13.6.2002

Hvernig er best að bera sig að við að elda á grillinu í sumar, hvað ber helst að varast?

Allir út að grilla

Hvernig er best að bera sig að við að elda á grillinu í sumar, hvað ber helst að varast?

Enginn vill verða fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að fjölskylda og vinir veikist vegna þess að ekki var gætt að hreinlæti og réttri meðhöndlun við matreiðslu. Því er mikilvægt að tryggja öryggi matarins, en gerlar eins og E.coli, Salmonella og Campylobacter geta valdið mjög alvarlegum veikindum.

Það þarf að gæta þess að hita matinn vel í gegn fyrir neyslu. En mesta hættan við grillaðan mat er ef hann er illa soðinn/steiktur og þ.a.l. hálf hrár. Því þarf að ganga úr skugga um það að kjöt af kjúklingi, hamborgurum, pylsum og öðru sé vel heitt í gegn að lokinni eldun. En hitun uppfyrir 70-75°C nægir til að drepa helstu matarsýkingargerla.
Ef t.d. ætlunin er að grilla fyrir marga og grillið getur ekki annað því að hafa matinn tilbúinn fyrir alla á sama tíma er upplagt að elda matinn inni áður og setja hann síðan soðinn/steiktan á grillið til þess að bæta bragð og útlit.

Hér fyrir neðan eru nokkrar reglur og leiðbeiningar sem vert er að hafa í huga þegar grillað er.

Hvernig er hægt að vera viss um að maturinn sé að fullu soðinn eða grillaður?

 • Áður en hafist er handa við að grilla þá þarf að bíða þangað til kolin eru rauðglóandi og með grátt yfirborð. Ef notað er gasgrill þá þarf ekki að bíða mjög lengi en rétt er þó að hita grillið vel áður en hafist er handa.
 • Ef notast er við frosið hráefni þá þarf að tryggja það að það sé vel þítt áður en eldun hefst.
 • Snúa þarf matnum reglulega og færa hann til á grillinu til þess að fá jafna hitun.
 • Mikilvægt er að athuga hvort maturinn sé sjóðandi heitur í miðju.
 • Það er ekki hægt að ganga út frá því þó maturinn sé vel brúnaður að utan að hann sé soðinn að innan.

Hvers vegna þarf að halda hráu kjöti frá mat sem er tilbúinn til neyslu?

Hrátt kjöt getur innihaldið gerla sem geta valdið matareitrun. þannig að ef hrátt kjöt eða vökvi af hráu kjöti kemst í snertingu við soðinn mat eða mat sem er tilbúinn til neyslu, þá geta gerlarnir komist í þann mat. Þetta er oftast kallað kross-mengun. Hægt er að koma í veg fyrir það með því að hafa í heiðri eftirfarandi þætti.

 • Þvo hendur eftir að hrátt kjöt hefur verið handfjallað.
 • Nota ekki sömu áhöld fyrir soðið og hrátt kjöt.
 • Setja ekki soðið kjöt á diska sem hafa verið notaðir fyrir hrátt kjöt.
 • Halda hráu kjöti aðgreindu, helst í lokuðu ílati, frá t.d. hamborgarabrauði eða salati.
 • Setja ekki hrátt kjöt við hliðina á soðnu eða hálfsoðnu kjöti á grillinu.
 • Bæta ekki við sósu eða marineringslegi við soðið kjöt ef slíkt hefur verið notað á hrátt kjöt.

Önnur atriði sem vert er að hafa í huga.

Hlýindi að sumri til valda því að góðar aðstæður skapast fyrir fjölgun gerla, þannig að það er mikilvægt að halda köldum mat köldum og heitum mat heitum fyrir neyslu.

Ef haldin er veisla með hlaðborði þá er mikilvægt að maturinn sé eins skamman tíma utan kælis og kostur er. Og ef það eru afgangar þá er mjög mikilvægt að henda þeim eða koma þeim í kæli eins fljótt og kostur er. Þegar afgangar eru teknir úr kæli þá er mikilvægt að borða þá sem fyrst eða hita þá vel fyrir neyslu, alls ekki láta þá standa lengi við herbergishita.

Eftirfarandi matvæli er mjög mikilvægt að geyma í kæli:

 • Matvæli sem innihalda rjóma, eins og rjómakökur og eftiréttir
 • Kjöt og kjúklinga
 • Mat sem inniheldur hrá egg

Þegar farið er í nestisferð þá er mikilvægt að hafa matinn kældan eins lengi og kostur er og geyma hann í kæliboxi þar til komið er að því að njóta nestisins. Æskilegt er að þvo hendurnar ef mögulegt er eða að nota sótthreinsandi handþurrkur áður en sest er að snæðingi. Og þegar borðað er úti þá er mikilvægt að hylja matinn til þess að varna því að skordýr, fuglar eða gæludýr komist í matinn, því þessi dýr geta smitað matinn með gerlum. Og síðast en ekki síst þá er mikilvægt að þvo allt grænmeti og ávexti vel fyrir neyslu.

Á upplýsingaveitu Rf ( http://www2.rf.is/upplv/ ) undir kaflanum um gæði er að finna fróðleik um örverur í fiski og matarsjúkdóma.


Fréttir