Evrópsk – amerísk vísindaráðstefna á Íslandi 2003

20.6.2002

Fyrirhugað er að halda næstu alþjóðlegu ráðstefnu Evrópusamtakanna WEFTA á Íslandi í júní 2003 í samvinnu við Ameríkusamtökin AFTC. Rf sér um undirbúning ráðstefnunnar sem haldin verður í Reykjavík. Ráðstefnan er titluð Trans Atlantic Fisheries Conference 2003 eða TAFT 2003

WEFTA ("The West European Fish Technologists Association") var sett á fót árið 1970. Hugmyndin var að gera fiskiðnaðarrannsóknir sýnilegri og ýta undir samstarf rannsóknastofnana í Evrópu. Rf hefur tekið þátt í þessu samstarfi frá upphafi eða því sem næst. Helsta verkefni WEFTA er að halda árlega ráðstefnu um rannsóknir innan aðildarstofnana. Aðildarstofnanir skiptast á um að halda þessa ráðstefnu og hélt Rf eina slíka 1979 og aðra árið 1990.
Þátttaka Rf í WEFTA samstarfinu hefur verið mikil lyftistöng fyrir rannsóknir á stofnuninni og gegnum þau samtök hefur Rf átt góðan aðgang að samstarfverkefnum sem styrkt eru af erlendum sjóðum.
Fyrir um þremur árum kom upp sú hugmynd að halda ráðstefnu sameiginlega með systur-félagi WEFTA í N-Ameríku AFTC (Atlantic Fisheries Technologist Conference). Ráðstefnan 2003 opnar leiðir til frekara vísindasamstarf við Evrópu og Bandaríkin og mun verða öflug kynning fyrir stofnunina og hvatning fyrir íslenskan iðnað til að efla rannsóknir á sviði sjávarútvegs.
Ætlunin er að hafa á ráðstefnunni stuttan vinnufund/námstefnu sérstaklega fyrir iðnaðinn þar sem áhersla verður á nýtingu aukaafurða í fiskiðnaði. Ráðstefnan verður opin fyrir alla.
Helstu efnisatriði á ráðstefnunni:

  • Sjávarafurðir sem hráefni fyrir markfæði með heilsubætandi áhrif
  • Ný efni unnin úr sjávarafurðum og betri nýting á aukaafurðum, úrgangi og frárennsli frá fiskiðnaði
  • Líftækniaðferðir til notkunar fyrir fisk og fiskafurðir
  • Nýjar aðferðir við meðferð, vinnslu og dreifingu fisk- og skelfiskafurða
  • Vísindalegur bakgrunnur að alþjóðlegum stöðlum um gæði og öryggi fiskafurða.
  • Áhrif fóðurs og fóðrunar á næringarinnihald og gæði fiskeldistegunda
  • Viðhorf neytenda til fiskneyslu
  • Hlutverk fiskeldis í að tryggja framtíðarbirgðir af fiski og nýjar fiskafurðir
  • Rekjanleiki í framleiðslukeðju sjávarafurða til að efla traust neytenda

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna

Nánari upplýsingar um WEFTA


Fréttir