• Þari | Kelp

Þurrkaður þari seldur úr landi

9.1.2013

Meðal matvælafyrirtækja sem hafa nýtt sérfræðiþekkingu Matís er Íslensk bláskel og sjávargróður ehf. í Stykkishólmi.

Fyrirtækið, sem var stofnað árið 2007, safnar og ræktar bláskel og safnar sjávargróðri með vistvænum og sjálfbærum hætti á nokkrum stöðum í Breiðafirði. „Við höfum átt ánægjulegt samstarf við Matís um nokkurra ára skeið. Þar eru margir mjög færir vísindamenn með víðtæka reynslu sem er gott að leita til,“ segir Símon Sturluson einn eigendanna. Hann segir miklu skipta að þekkingarnet Matís teygi sig langt út fyrir landsteinana þannig að búi þeir ekki sjálfir yfir þeirri þekkingu sem þörf er fyrir hverju sinni viti þeir hvar hennar er að leita og geti nálgast hana.

Í framhaldi af bláskeljaræktuninni hefur fyrirtækið nú hafið tilraunaútflutning á þurrkuðum þara til Danmerkur, Noregs og Spánar. Símon segir að þarinn sé yfirleitt seldur þurrkaður enda sé það langbesta geymsluaðferðin. „Markaðurinn fyrir þaraafurðir er mjög stór, við teljum okkur vera með mikil gæði og viljum því fá góð verð fyrir vörurnar okkar. Þess vegna forðumst við alla óþarfa milliliði og reynum til dæmis að selja beint inn á veitingahúsin. Þetta er allt að koma en gerist í rólegheitunum,“ segir Símon.


Fréttir