Er nútímamataræði að ganga af mannkyninu dauðu?

10.7.2002

Á s.l. 4 milljónum ára hefur maðurinn þróast í það að verða fullkomnasta átvagl jarðarinnar, þ.e. sú tegund sem étið getur fjölbreyttasta fæðu allra tegunda. Nútímamataræði og þá sérstaklega aukin áhersla á hverskonar megrunarkúra er að snúa þessari þróun við.

Þessu heldur a.m.k bandaríski mannfræðingurinn Peter Ungar, fram í nýrri bók, Human Diet: its Origin and Evolution. Ungar bendir á að vegna tiltölulega einfaldrar gerðar meltingarfæra mannsins, en þó aðallega vegna einstakra hæfileika til þess að veiða, rækta, matreiða og neyta ólíklegustu tegunda matvæla, hafið mannkynið þróað með sér hæfileika til að neyta fleiri tegunda matvæla en nokkur önnur tegund á jörðinni.

Eitt af því sem bent er á í bókinn er að þegar mannkynið þróaðist úr því að vera aðallega veiðimannasamfélög í það að verða jarðyrkjusamfélög, með tilheyrandi aukinni neyslu landbúnaðarafurða, þá hafi það haft merkjanleg áhrif á heilsufar til hins verra. Þetta sýni t.d. rannsóknir á fornum beinum og tönnum, sem sýni aukna tíðni alls kyns sýkinga. Í bókinni er því haldið fram að síaukin áhersla á meiri neyslu landbúnaðarafurða ýti undir þessa þróun.

Höfundum áðurnefndrar bókar, sem er auk Ungars, Mark Teaford frá John Hopkins háskólanum, virðist þó hvað mest uppsigað við megrunarkúra nútímans, sem þeir segja byggða á þeim misskilningi að leiðin að betri heilsu sé sú að borða aðeins fáeinar fæðutegundir. Þetta sé alrangt, gangi þvert gegn þróun mannkynsins s.l. milljón ár og geti verið beinlínis heilsuspillandi.

Ljóst er að seint verða allir sammála því sem þarna er haldið fram, en engu að síður er þetta athyglisvert innlegg í umræðuna um áhrif mataræðis á heilsufar, en sú umræða fer vaxandi.


Fréttir