Hundadagar og matarsjúkdómar

16.7.2002

Samkvæmt íslenska almanakinu kallast tímabilið frá 13. júlí til 23. ágúst hundadagar. Egyptar og Grikkir í fornöld trúðu því m.a. að hundar yrðu galnir um þetta leyti og jafnvel mannfólkið líka, en þessi árstími hefur einnig lengi verið tengdur matarsjúkdómum.

Nafnið hundadagar tengist stjörnunni Síríus sem þá fer að sjást á morgnana. Hjá Íslendingum er hundadaganafnið reyndar tengt Jörundi hundadagakonungi sem tók sér völd á Íslandi 25. júní 1809, en var hrakinn frá völdum 22. ágúst sama ár.

En það er margt til í því að menn og skepnur hagi sér einkennilega um þetta leyti árs. Hundadaga ber nefnilega upp á heitasta tíma ársins á norðuhveli jarðar og hitinn getur valdið ýmsum óþægindum.

Fyrir daga almennilegra kæliskápa var einkum notast við jarðhýsi og svala kjallara til að varðveita matvæli. En þegar komið var þetta fram á sumar voru jafnvel þeir orðnir heitir og matur því farinn að skemmast. Þá fór að bera meira á því að fólk færi að finna til alls kyns krankleika af völdum matvæla. Í Svíþjóð hét það m.a.s. að fólk yrði "sommarsjuka" þegar það þjáðist af matarsjúkdómum.

Þó svo dregið hafi úr tíðni matarsjúkdóma á seinni árum er alltaf gott að hafa eftirfaraandi í huga, sérstaklega ef fólk vill losna við að verða "sumargalið:"

°athuga vel merkingu á kælivöru, velja þá sem nýjust er

°setja strax kælivöru í ísskáp eftir að heim er komið

°opna ísskápinn sem minnst

°taka aðeins úr ísskápnum þau matvæli sen nota skal hverju sinni.


Fréttir