• Whitefish

Opinn vinnufundur um mat á umhverfisáhrifum í virðiskeðjum fiskafurða

8.3.2013

Miðvikudaginn 13. mars fer fram í húsakynnum Matís ohf. að Vínlandsleið 12 í Reykjavík opinn vinnufundur í verkefninu WhiteFish, sem styrkt er af 7. rannsóknaáætlun Evrópusambandsins.

Verkefnið hefur að markmiði að þróa aðferðafræði og hugbúnað sem gerir framleiðendum þorsk- og ýsuafurða á einfaldan hátt kleift að framkvæma mat á sjálfbærni og umhverfisáhrifum afurða þeirra. Íslensk fyrirtæki og samtök gegna lykilhlutverki í verkefninu, en auk þeirra koma norskir, sænskir, breskir og hollenskir aðilar að verkefninu.
 

Aukin krafa er um grænt bókhald í alþjóðlegum viðskiptum og hafa margar stærri verslunarkeðjur heims þegar tilkynnt að framleiðendur sjávarfangs sem halda grænt bókhald hafi forgang við innkaup. Fyrir smá- og meðalstór fyrirtæki getur verið afar kostnaðarsamt og flókið að uppfylla slíkar kröfur.

Verkefnið ber nafnið WhiteFish og er svokallað „rannsóknarverkefni til hagsbóta fyrir samtök smárra- og meðalstórra fyrirtækja“. Verkefnið, sem er fjármagnað af sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins, mun standa yfir í þrjú ár og er heildarfjárhagsáætlun þess tæpar þrjár milljónir Evra.

„Markmið WhiteFish verkefnisins er að tryggja smáum- og meðalstórum fyrirtækjum í virðiskeðju þorsk og ýsuafurða aðgang að lausnum sem munu hjálpa þeim að halda skrá yfir hina fjölmörgu jákvæðu eiginleika hvítfisks úr norðaustur Atlantshafi. Þetta mun væntanlega veita framleiðendum forskot á markaði“ segir Petter Olsen hjá matvælarannsóknarstofnuninni Nofima í Noregi, sem leiðir verkefnið.

WhiteFish verkefnið er í eigu fimm iðnaðarsamtaka frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Innan samtakanna starfa rúmlega 1200 smá- og meðalstór fyrirtæki sem eiga hagsmuna að gæta varðandi veiðar og vinnslu á þorski og ýsu.

Fjórar virðiskeðjur þorsk- og ýsuafurða innan áðurnefndra landa hafa verið valdar og á þeim mun verða framkvæmd vistferilsgreining (LCA). Mun sú greining reikna út umhverfisálag afurðanna í hverjum hlekk virðiskeðjunnar fyrir sig. Í framhaldi verður þróuð aðferðafræði og búnaður sem gerir framleiðendum kleift að reikna út umhverfisálag á einfaldan hátt, með hagnýtingu rekjanleika. Búnaðurinn verður svo sannreyndur innan verkefnisins.

WhiteFish verkefnið hefur nú staðið yfir í rúmlega eitt ár og á vinnufundinum verður greint frá ýmsum bráðabirgðaniðurstöðum og leitað eftir innleggi í áframhaldandi framgang verkefnisins frá þeim sem áhuga hafa.

Dagskrá vinnufundarins má sjá hér.

Fundurinn er öllum opinn og þátttaka gjaldfrjáls, en þeir sem hyggjast taka þátt eru þó beðnir um að tilkynna þátttöku til jonas.r.vidarsson@matis.is

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu verkefnisins www.whitefishproject.org eða hjá Jónasi R. Viðarssyni í síma 422-5107


Fréttir