• Turbot (www.fauna.is)

Aðstæður til sandhverfueldis eru hagstæðar á Íslandi

11.6.2013

Sandhverfa er mjög eftirsóttur fiskur á mörkuðum í Evrópu og að mörgu leyti eru aðstæður til eldis sandhverfu góðar á Íslandi.

Rannsóknir á fóðri fyrir sandhverfu hafa verið af skornum skammti hingað til, en fóðurkostnaður nemur að jafnaði 50 – 60% af framleiðslukostnaði í sandhverfueldi. Matís hefur tekið þátt í nokkrum verkefnum tengdum sandhverfueldi undir forustu Akvaplan Niva á Íslandi.

Verkefnin hafa verið studd af AVS sjóðnum, Tækniþróunarsjóði Rannís og Evrópusambandinu undir samheitinu MAXIMUS. Þátttaka Matís hefur að mestu snúist um að besta fóður í sandhverfueldi en auk þess hefur Matís komið að erfðarannsóknum á íslenska stofni fiskjarins.

Rannsóknirnar hafa verið framkvæmdar í rannsókna aðstöðu Háskólans á Hólum í Verinu á Sauðárkróki, Silfurstjörnunni í Öxarfirði og hjá fyrirtækinu Rodecan á Spáni.

Í fyrstu rannsókninni, sem gerð var í Verinu á Sauðárkróki, var leitast við að finna besta hlutfall próteins og fitu í vaxtarfóðri fyrir sandhverfu. Helstu niðurstöður þeirra rannsóknar voru að hagkvæmast væri að nota fóður sem innihéldi 42,5% prótein og 25% fitu. Á þeim tíma sem rannsóknin var gerð var algengt að prótein innihald í sandhverfufóðri væri 50 – 55% og fituinnihald u.þ.b. 12%. Þessar niðurstöður sýndu að hægt væri að lækka hráefniskostnað í vaxtarfóðri verulega eða um  12% og má leiða að því líkur að breyting á fóðri í samræmi við þessar niðurstöður lækki framleiðslukostnað á sandhverfu um 6%. Niðurstöður þessarar rannsóknar voru uppistaðan í meistaraverkefni Erik Leksnes og hafa einnig verið birtar í grein í ritrýndu tímariti (Aquaculture, 2012, (350-353), 75-81.).

Til þess að ganga úr skugga um hvort þessar breytingar á fóðri hefðu áhrif á gæði framleiðslunnar var framkvæmt skynmat á afurðunum og kom fram að við lækkun á próteini úr 50% í 42,5% fannst enginn marktækur munur á gæðum afurðanna en væri próteinið lækkað umfram það virtist sem að lýkur ykjust á moldarbragði í afurðinni.

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru sem stendur til prófunar í rannsókn hjá sandhverfufyrirtækinu Rodecan á Spáni til þess að sannreyna, að sami árangur og náðist í rannsókninni í Verinu, geti náðst í stórskalaframleiðslu í eldisstöð.

Næsta verkefni  gekk út á að rannsaka viðbrögð sandhverfu við notkun mismunandi prótein hráefna í vaxtarfóðri með það fyrir augum að minnka notkun fiskimjöls. Borin voru saman fóður með mismiklu fiskimjöli þar sem fiskimjölinu var skipt út með blöndu af jurtamjöli.

Fyrst var framkvæmd skymun í rannsókn í Verinu þar sem borin voru saman fóður með mismunandi innihaldi fiskimjöls( 58%, 46% og 33%) en í stað minnkunarinnar á fiskimjölinu var notuð blanda af jurtaprótein hráefnum. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að hægt væri að lækka hlutfall fiskimjöls um 12 prósentustig í fóðrinu án þess að það hefði nokkur áhrif á vöxt eða fóðurnýtingu.

Til þess að skoða þetta nánar er nú í gangi tilraun hjá Silfurstjörnunni í Öxarfirði og prófuð eru fleiri þrep í notkun fiskimjöls. Niðurstöður úr þeirri rannsókn sýna að 33% fiskimjöl í fóðri gefur fyllilega jafn góðan vöxt og fóðurnýtingu og fóður með hærra fiskimjölsinnihaldi. Með því að lækka hlut fiskimjöls úr 58% af fóðrinu í 33% lækkar hráefniskostnaður í fóðri um sem nemur 20% og þar með framleiðslukostnaður um 10%.

Fóður í allar rannsóknirnar var framleitt af Fóðurverksmiðjunni Laxá hf.

Heildar niðurstaða þessara rannsókna er að hægt að lækka framleiðslukostnað í sandhverfueldi verulega, með því að breyta samsetningu fóðursins sem gefið er, án þess að það komi niður á framleiðslunni eða gæðum afurða. Miðað við hráefnaverð um þessar mundir sýna niðurstöðurnar að hægt er að lækka framleiðslukostnaðinn um 15 – 20 prósent samanborið við það að nota það fóður sem flestir framleiðendur sandhverfu eru að nota í dag.

Nánari upplýsingar veitir Jón Árnason verkefnastjóri hjá Matís.


Fréttir