Norðmenn horfa til Íslands þegar kemur að nýtingu á fiskafurðum

18.6.2013

Nýting auka afurða af hvítfiski, einkum þorski, hér á landi hefur vakið verðskuldaða athygli í Noregi.

Talið er að um þriðjungi norska aflans sé hent á sama tíma og aflaheimildir fara almennt minnkandi og því aðkallandi fyrir norskan sjávarútveg að leita leiða til að fullnýta aflann.

Í síðasta tímariti norskra fiskvinnslustöðva, Norsk Sjømat, má finna grein eftir Sigurjón Arason yfirverkfræðing hjá Matís og prófessor við Háskóla Íslands, um þann árangur sem Íslendingar hafa náð í verðmætasköpun og bættri nýtingu fiskins. En Matís hefur spilað stórt hlutverki í vöruþróun á „auka afurðum“ auk þess að sem fyrirtækið hefur stuðlað að betri nýtingu með fræðslu til fiskvinnsluaðila og smábátaeigenda. Þá hefur Matís einnig átt í góðu samstarfi við fyrirtæki á sviði tæknilausna fyrir fiskvinnslu með það markmið að hámarka nýtinguna.

Í greininni kemur fram að íslenskar vörur á borð við lýsi, þurrkaðar þorsktungur og ýmsar vöru úr þorskalifur hafi vakið athygli. Enda voru vörur úr niðursoðnum þorsklifrum og hrognum fluttar út fyrir rúmlega 72 milljón evra eða samtals um 18.000 tonn árið 2011 og vörur unnar úr þorskhausum fluttar út fyrir 50 milljónir evra sama ár. Matís, í samstarfi við fyrirtæki hér innanlands og utan, hefur átt stóran þátt í þróun margra nýrra afurða sem skapa nú útflutningsverðmæti fyrir Íslendinga og telja forsvarsmenn Norsk Sjømat að Norðmenn geti tileinkað sér margt sem Íslendingar eru að gera á þessu sviði.

Hér má lesa greinina í heild, á norsku.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.


Fréttir