• vinnsla_voruthroun

Aukin vinnsla skilar verðmætum

26.6.2013

 Á síðustu árum hefur mikill metnaður verið lagður í fullnýtingu fisks hér á landi sem hefur stuðlað að mikilli verðmætasköpun og sem dæmi má nefna að árið 2012 var hvert veitt tonn af ýsu um þriðjungi verðmætara en það var árið 2008.

Á síðustu árum hefur mikill metnaður verið lagður í fullnýtingu fisks hér á landi, sem hefur skilað góðum árangri, ef miðað er við aðrar fiskveiðiþjóðir. Norðmenn sem gjarnan eru álitnir okkar helstu „keppinautar“  eru meðal þeirra sem horfa nú til Íslands í viðleitni sinni til að auka aflaverðmæti. Munurinn á aflanýtingu Íslendinga og Norðmanna er umtalsverður. Á Íslandi fást t.d. 570 kg af afurðum úr 1 tonni af þorsk en sama magn skilar Norðmönnum aðeins 410 kg af afurðum. Munurinn nemur 16% eða 160 kg á hvert tonn sem  þýðir að virðisaukning Norðmanna út frá heildarafla þeirra í Barentshafi árið 2013 gæti numið rúmlega 1 milljarði NOK eða 21 milljarði ISK. ef þeir tileinkuðu sér aðferðir Íslendinga.[1]

En á sama tíma og Íslendingar geta glaðst yfir því hve vel hefur tekist til er það  staðreynd að hér má gera enn betur og það er enn talsvert svigrúm fyrir enn  frekari nýtingu og nýsköpun. Þá er umhugsunarvert hversu stór hluti aflans fer óunninn úr landi en segja má að milljarða verðmæti leki úr landi í formi óunnins eða lítt unnins afla á ári hverju. En auðveldlega mætti auka útflutningsverðmæti sjávarafurða með meiri vinnslu í landi.

Ýsan verður verðmætari

Á fundi fyrir nokkrum misserum kom fram að árið 2008 hafi um  2,2 milljarða verðmæti tapast eingöngu vegna þess að ýsa hafi verið seld úr landi óunnin, en heildarverðmæt slægðar ýsu var þá um  4,6 milljarðar. Úr þessu sama magni mátti framleiða 11.000 tonn af roð- og beinlausum flökum og 1.730 tonn af þurrkuðum hausum, en samtals verðmæti slíkra afurða var um 6,8 milljarðar. Þannig hefði mátt auka virði aflans um 33%  ef ýsan hefði verið unnin hér á landi. Sem betur fer eykst vinnslan hér heima ár frá ári sem hefur skilað sér í atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun.

Frá árinu 2008 hefur ýsuaflinn dregist umtalsvert saman og árið 2012 var hann 47.700 tn. eða tæpur helmingur þess sem hann var árið 2008 þegar hann var 102.400 tn. Þrátt fyrir þennan mikla aflasamdrátt þá hafa útflutningsverðmæti ýsuafurða í íslenskum krónum aðeins dregist saman um 23%. Ef veiddu magni er deilt á heildarútflutningsverðmætin og notað gengi evrunnar þá kemur í ljós að hvert veitt tonn af ýsu er um þriðjungi verðmætara árið 2012 en 2008 í evrum.  Þetta bendir tvímælalaust til þess að aukin vinnsla verðmætari afurða hefur átt sér stað og leiða má líkum að því að hægt sé að gera enn betur með aukinn vinnslu og bættri nýtingu.

Nám í matvælafræði eykur nýsköpun

Matís hefur staðið að ýmsum rannsóknum sem stuðla að bættri meðferð og betri nýtingu aflans og skilar það sér tvímælalaust í auknum möguleikum í framleiðslu verðmætari afurða en áður. Fyrirtækið hefur einnig tekið þátt í að þróa vinnsluferla fyrir vörur á borð við þurrkaða þorskhausa og niðursoðna lifur. Auk þess að hafa  verið með í verkefnum sem stuðla að bættri hönnun  fiskvinnslutækja með það að markmiði að hámarka nýtingu, auka afköst og bæta gæði. Matís hefur einnig átt í góðu samstarfi við Háskóla Íslands og kom að stofnun meistaranáms í Matvælafræði sem er liður í því að auka faglega þekkingu á vinnslu og meðhöndlun matvæla auk þess sem virt samstarf í frjóu umhverfi gefur af sér hugmyndir og öfluga nýsköpun. Svo vel hefur Matís tekist til í samstarfi sínum með háskólanemendum að íslenskir nemendur í matvælafræði og tengdum greinum eru orðnir eftirsóttir hjá stórfyrirtækjum eins og fram kom í frétt hér á síðunni fyrir skömmu. Sjá frétt.

Einkunnarorð Matís, Okkar rannsóknir – allra hagur, eiga því einkar vel við í þessu samhengi, enda hafa rannsóknir fyrirtækisins nú þegar skilað þjóðarbúinu arði. Þó er ljóst að stjórnvöld þurfa að tryggja aukna fjármuni til matvælarannsókna, þar liggur án efa fjárfesting til frambúðar, ef við getum aukið aflaverðmæti okkar með því einu að auka við vinnsluna hér heima með nýsköpun og vöruþróun á afurðum okkar sem gæti á sama tíma leitt til atvinnusköpunar fyrir fjölda fólks.


„Barentshaf: Þorskkvótinn aukinn í milljón tonn-250 þúsund tonna aukning“- http://evropuvaktin.is/frettir/25666/


Fréttir