Noregur: Úthlutun laxeldisleyfa veldur deilum
Sú ákvörðun norska sjávarútvegsráðuneytisins fyrr í vikunni að úthluta 50 nýjum leyfum til laxeldis á næsta ári er umdeild. Þeir sem fyrir eru í greininni segja ákvörðunina vera óráð.
Norska sjávarútvegsráðuneytið ákvað á dögunum að veita 50 ný leyfi til laxeldis á næsta ári. Í ár voru gefin út 40 ný leyfi og samtals nema þessar úthlutanir um 12% aukningu á leyfum til laxeldis í Noregi. Slíkum heimildum var síðast úthlutað árið 1988.
Ekki eru allir á eitt sáttir við þessa ákvörðun ráðuneytisins. Norskir laxeldismenn standa nú t.a.m. í erfiðum samningaviðræðum við ESB um lækkun eða niðurfellingu refsitolla sem lagðir voru á þá eftir að þeir urðu uppvísir að því að undirbjóða vöru sína á mörkuðum ESB.
Norskir laxeldismenn óttast að fjölgun leyfa verði til að styggja laxeldisbændur innan ESB, einkum í Skotlandi og á Íralandi og geti þannig torveldað samninga við ESB. Hafa þeir krafist þess að úthlutun leyfanna 50 fyrir árið 2003 verði dregin til baka.