Svíar falla fyrir "umhverfisvænum" þorski

2.12.2002

Margir sænskir neytendur eru hættir að kaupa villtan þorsk vegna umræðna um ofveiði þorskstofna, m.a. í Norðursjó og Eystrasalti. Þeir hafa hins vegar tekið eldisþorski frá Noregi opnum örmum og telja að þar sé um umhverfisvæna matvöru að ræða.

Þorskneysla í Svíþjóð hefur dregist saman um helming á s.l. 6 mánuðum og er neikvæðri umræðu um ástand þorskstofna einkum kennt þar um. Á sama tíma er eldisþorskur einkum markaðsettur sem umhverfisvæn framleiðsla.

Framboð á eldisþorski er reyndar lítið enn sem komið er, um 1 tonn af flökum koma í verslanir í Stokkhólmi vikulega. En kaupmenn segjast vissir um að geta selt meira í framtíðinni.

Ýmsir vísindamenn hafa spáð því að framleiðsla á eldisþorski í Noregi geti orðið jafnmikil og á eldislaxi á næstu 10 árum eða um hálf milljón tonn á ári. Spurningin er hvort neytendur munu þá enn vera sama sinnis, þ.e. að eldisþorskur sé umhverfisvænni en villtur. Eldisfiskur þarf jú mikla fóðrun og fiskeldi fylgir alltaf einhver mengun.


Fréttir