Matvælastofnun Evrópu: Bara fögur fyrirheit?

12.12.2002

Framlög til Matvælastofnunar Evrópu, European Food Safety Authority (EFSA), sem reyndar er ekki tekin til starfa enn, hafa verið skorin niður um helming. Spurningar hafa vaknað hvort þingmenn á Evrópuþinginu séu þegar búnir að gleyma kúariðufárinu og gin og klaufaveikifaraldinum sem geysaði fyrir nokkrum misserum.

Ákveðið var að setja EFSA á laggirnar sem öfluga stofnun sem hefði m.a. það hlutverk að annast matvælaeftirlit í Evrópu og endurvekja traust neytenda á matvælaiðnaði eftir þær hremmingar sem gengu yfir álfuna fyrir nokkrum árum.

Reyndar gekk ekki andskotalaust að koma stofnuninni á koppinn því hart var deilt um hvar hún skyldi staðsett. En þingmenn á Evrópuþinginu virtust staðráðnir í að gera EFSA að öflugri stofnun og höfðu ákveðið fyrr á þessu ári að framlög til stofnunarinnar skyldu vera €16,493,423. Nú er hins vegar búið að skera þessa upphæð niður um helming.

Stjórnarformaður EFSA segir að þessi upphæð dugi ekki til að stofnunin geti uppfyllt það eftirlitshlutverk sem henni sé ætlað samkvæmt reglugerð ESB um stofnunina. Það virðist því nokkuð ljóst að öryggi matvæla er ekki lengur það forgangsatriði í huga þingmanna á Evrópuþinginu sem það áður var. E.t.v. þarf að bíða eftir að Grýla skjóti næst upp kollinum í evrópskum matvælaiðnaði.


Fréttir