• Icelandic Agricultural Sciences 2013

Icelandic Agricultural Sciences er komið út

1.11.2013

Nú er 26. árgangur vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences (gamla Búvísindi) komin út og allar greinarnar sem þar birtast eru einnig á heimasíðu ritsins, www.ias.is, en ritið er í opnum aðgangi (open access). Átta greinar eru í ritinu og spanna vítt svið að venju.

Í ritinu er yfirlitsgrein um nýjar tegundir liðfætlna á trjám og runnum á Íslandi þar sem landnámssaga nýrra liðdýrtegunda er rakin frá byrjun tuttugustu aldar til 2012. Það er afar mikill fengur af að fá þetta fræðilega yfirlit því stöðugt berast nýjar tegundir til landsins og sumar ná fótfestu hér. Hinar greinarnar fjalla um stórmítla (ticks) á Íslandi, greiningu á Campylobacter í kjúklingum, áhrif skógræktar á ánamaðka á Íslandi, sveppasýkingu í hör, kartöflumyglu, aðferð til greiningar á nýrnabakteríum í laxi og um nýtingu á gróðurtorfum við uppgræðslu í vegköntum.

Ritið kemur út einu sinni á ári og er einungis með ritrýndar vísindagreinar. Það er í hópi fyrsta flokks vísindarita og fær mat frá Tomson Reuters Web of Knowlgede, núna annað árið í röð. Í fyrra var matsstuðullinn (ISI Impact Factor) 0,562  en er núna kominn í 1,750 sem er mjög góður árangur og er IAS nú ofarlega á blaði meðal smárra til meðal stórra vísindarita sem það er sett í flokk með. Oftast eru þessi rit með IF 0,4 til 1,0. Þetta er einnig hærri IF en önnur íslensk fræðirit eru með. Þetta sýnir að ritið er víða þekkt og lesið og að það er vitnað í það í öðrum virtum vísindaritum. Meiri hvatningu er vart hægt að fá til að rita fyrsta flokks greinar í IAS, það er sífellt að verða vinsælla og greinar berast víða að.

Í ár bárust alls 34 handrit og þar af eru nú 8 birt í ritinu. Hinum var annað hvort hafnað eða tími vannst ekki til að ná í rit þessa árs (tvö handrit) þannig að er höfnunarhlutfallið 75%. Þetta háa höfnunarhlutfall skýrist að miklum hluta af því að mörg handrit berast sem falla ekki að sviði ritsins en nokkur falla á strangri ritrýni sem við, eins og önnur vísindarit viðhafa. Nú eru fjögur handrit í vinnslu fyrir næsta hefti og nokkur á leiðinni.
 
Ritstjórn IAS vill vekja athygli á ritinu og hvetur fólk til að kynna sér þessar nýju greinar. Tekið er við handritum að greinum í ritið árið um kring og eru þær birtar á netinu jafnskjótt og þær eru tilbúnar til birtingar. Þar sem nokkur handrit eru nú þegar í vinnslu má gera ráð fyrir að fyrstu greinar í hefti 27/2014 birtist á netinu í byrjun næsta árs.

Ritið er fáanlegt hjá: Margréti Jónsdóttur, LbhÍ, Keldnaholti, 112 Reykjavík (margretj()lbhi.is)

Útgefendur ritsins eru:

Bændasamtök Íslands
Háskólinn á Hólum
Landbúnaðarháskóli Íslands
Landgræðsla ríkisins
Matís
Rannsóknarstöð skógræktar, Mógilsá
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Keldum
Veiðimálastofnun

Ritstjórn IAS

Þorsteinn Guðmundsson (aðalritstjóri)
Bjarni Diðrik Sigurðsson
Sigurður Ingvarsson


Fréttir