• Logo_UNU_ftp

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna veitir UNU-FTP viðurkenningu 

18.12.2013

Á fundi allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna í New York 9. desember 2013 var viðurkennt sérstaklega framlag Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UNU-FTP) við að byggja upp sjávarútveg í þróunarríkjum. 

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna viðurkennir mikilvægi starfs Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ á Íslandi

Á fundi allsherjarþings Sameinuðu Þjóðanna í New York 9. desember 2013, var samþykkt regluleg ályktun um sjálfbærar fiskveiðar (fiskveiðiályktun allsherjarþingsins). Í ályktuninni, sem er ávöxtur samningaviðræðna milli ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, var að þessu sinni viðurkennt sérstaklega framlag Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi við að byggja upp sjávarútveg í þróunarríkjum.

Í ályktuninni segir að allsherjarþingið meti mikils 15 ára starf skólans við að byggja upp þekkingu, færni og verkkunnáttu í þróunarríkjunum, en alls  hafi 280 nemendur frá 47 löndum útskrifast frá skólanum. Að auki hafi skólinn staðið fyrir 36 styttri námskeiðum í 12 löndum.

Um samstarf UNU-FTP og Matís

Meðal samstarfsverkefna sem Matís tekur þátt í er Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna en auk Matís standa að skólanum Hafrannsóknastofnunin, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólans á Hólum. Verkefni nemenda við skólann eru öll unnin með þarfir í heimalöndum nemendanna í huga. Þannig hafa verkefni í gegnum tíðina fjallað um gerð gæðastuðulsskala fyrir makríl, um áhrif sorbats og kítosans á geymsluþol makríls, um kennsluefni fyrir gerð HACCP kerfis í fiskiðnaði í Norður-Kóreu og um uppsetningu rekjanleikakerfis á innanlandsmarkaði í Kína svo örfá dæmi séu tekin.

Samstarf Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Matís hefur aukist stöðugt undanfarin ár. Auk grunnnáms, sem allir nemendur skólans fá hjá Matís, annast fyrirtækið sex vikna sérnám og á hverju ári vinna nokkrir nemenda skólans lokaverkefni hjá Matís. Því til viðbótar stundar reglulega nokkur fjöldi nema skólans doktors- og meistaranám hjá fyrirtækinu og því má í raun með sanni segja að Matís sé hluti af skólanum.

Heimasíða Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Ofangreind frétt er tekin að hluta af heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins.


Fréttir