Kínverskur nemandi vann að M.S. verkefni á Rf.

11.11.2003

Mei Manxue, sem undanfarin tvö ár hefur unnið að meistaraverkefninu "Nýting aukaafurða við vinnslu á flakabitum," var á meðal þeirra sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands s.l. laugardag. Leiðbeinendur Mei voru þrír sérfræðingar á Rf, sem jafnframt kenna við H.Í.

Tilgangur verkefnisins var að þróa “fisklím” til endurmótunar á fiskbitum úr afskurði sem verður til við flakavinnslu (marningur), ásamt vatni og salti.

Afskurðurinn var rifinn niður og blandaður með vatni og salti til að búa til límið. Á meðal þeirra þátta sem kannaðir voru má nefna hlutfall vatns, salts og marnings, aldur hráefnis, hraði við blöndun og tímalengd blöndunar á eiginleika límsins. Meðal matsþátta voru seigja, áferð, sýrustig, litur og vatnsheldni.

Fisklímið var einnig prófað við endurmótun, þ.e. „límingu“ fiskbita. Einkum var litið til seigju við mat á límeiginleikum og höfðu magn vatns og salts sem blandað var við fiskinn mest áhrif. Hærri saltstyrkur leiddi til meiri seigju í líminu. Lím sem innihélt lægra hlutfall af vatni var seigara. Blöndunartími hafði marktæk áhrif á blæ eða lit límsins. Eftir lengri blöndunartíma var límið hvítara.

Prófað var að nota límblöndurnar til að líma saman fiskbita og lofa niðurstöður mjög góðu. Þær sýndu að mögulegt er að líma fiskbita saman með því að nota aðeins blöndu af vatni, salti og hökkuðum þorskvöðva. Kolmunni reyndist einnig vel í fisklím og hér gæti verið komin leið til að auka verðmæti hans. Verkefnið var unnið í samvinnu Rf, Háskóla Íslands og Samherja og var það styrkt af Tæknisjóði Rannsóknaráðs Íslands.

Ávinningurinn er aukin vísindaleg þekking og grunnur að vöruþróun sem leitt gæti til bættrar nýtingar og virðisauka fyrir afskurð og marning og að kolmunni verði að hluta til unnin í verðmeiri vöru en nú er. Þetta gæti leitt til nýrra leiða við vinnslu á bolfiski og hugsanlega bættrar arðsemi landvinnslu.

Aðalleiðbeinandi var Dr. Kristberg Kristbergsson og meðleiðbeinendur Sigurjón Arason og Guðjón Þorkelsson, en þeir starfa allir á Rf.


Fréttir