• Námskeið í Víetnam í oktober 2003

Starfsmenn Rf halda námskeið í Vietnam.

11.11.2003

Tveir starfsmenn Rf, Sveinn V. Árnason og Sigurjón Arason, komu til landsins í gær eftir ferðalag til Vietnam, þar sem þeir héldu námskeið fyrir háskólafólk og embættismenn um ýmsa þætti er lúta að vinnslutækni og gæða- og öryggismálum matvæla.

Tildrög námskeiðsins má rekja til opinberrar heimsóknar Davíðs Oddsonar til Víetnam í apríl árið 2002 og heimsóknar forsætisráðherra Víetnams, Phan Van Kai, hingað til lands í september sama ár. Í kjölfarið var m.a. ákveðið að löndin tvö tækju upp ýmis konar samstarf, ekki síst á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu.

Rf, í samvinnu við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna tók að sér að semja kennsluefni sem tengist vinnslutækni og gæða- og öryggismálum matvæla fyrir háskóla í Víetnam. Efnið er ætlað starfsfólki í gæðamálum hjá fiskvinnslum en er einnig ætlað að bæta kennslu á þessu sviði í háskólunum sem að verkefninu koma. Fóru fjórir starfsmenn Rf til Víetnam í apríl s.l. til að kanna aðstæður og undirbúa verkefnið.

Þeir Sveinn og Sigurjón fóru síðan og héldu fyrstu tvö námskeiðin af fimm sem til stendur að halda, en gert er ráð fyrir að þau þrjú sem eftir eru verði haldin á fyrra helmingi næsta árs. Eftir það munu heimamenn sjá um að halda námskeiðin sjálfir. Námskeiðin voru haldin í borginni Nha Trang, sem er í suðurhluta Víetnam.

Um 70% alls sjávarfangs í heiminum kemur frá Asíu og er Víetnam í fjórða sæti þeirra Asíulanda sem framleiða mest sjávarafurða, á eftir Kína, Taílandi og Indlandi.


Fréttir