• Sigurjón á markaði í Nígeríu
  • Konur á fiskmarkaði í Abba

Starfsmaður Rf á ferð í Nígeríu

18.11.2003

Sigurjón Arason, efnaverkfræðingur á Rf, er nýkominn úr ferðalagi til Nígeríu, en þar skoðaði hann m.a. fiskmarkaði ásamt starfsmönnum Fiskmiðlunar Norðurlands en það fyrirtæki er stærsti útflytjandi hertra fiskafurða frá Íslandi til Nígeríu. Rf hefur um árabil rannsakað og þróað aðferðir við þurrkun á fiski og hefur aðstoðað mörg íslensk fyrirtæki sem sérhæft hafa sig í vinnslu á aukaafurðum, s.s. þurrkuðum þorskhausum.

Nígería er fjölmennasta ríki Afríku, en íbúar þar eru á milli 130-140 milljónir og þar í landi er löng hefð fyrir neyslu hertra fiskafurða. Má nefna að íslensk fyrirtæki seldu fisk fyrir rúma 3 milljarða króna til Nígeríu árið 2002. Sigurjón segir það auðskilið hversu mikilvægur hertur fiskur sé á þessum slóðum, fiskurinn er mikilvægur próteingjafi og þarna eru kæligeymslur ekki algengar og matvæli, s.s. kjöt því fljót að skemmast.

Fiskurinn er mikið notaður í súpur og ýmsa pottrétti, líkt og við notum kraft. 

Sigurjón segir það mikið ævintýri að heimsækja fiskmarkað í Nígeríu og að heimamenn séu vel meðvitaðir um gæði og láti ekki bjóða sér hvaða vöru sem er. 

Almennt virðist sem íslenskur fiskur hafi gott orð á sér þarna, en þó kveðst Sigurjón hafa séð þarna vöru á boðstólum sem ekki hafi verið mönnum bjóðandi.

Í borginni Aba, sem íslenski hópurinn heimsótti, flutti Sigurjón m.a. annars erindi um það hvernig fiskur er þurrkaður á Íslandi og segir hann að viðstaddir hafi verið mjög áhugasamir og spurt margs.   


Fréttir