Ísland í ótrúlegri stöðu hvað líftækni og lífefni varðar

23.1.2015

Sérstaða Íslands þegar kemur að líftækni og lífefnum er fjölbreytileiki náttúrunnar og sérkenni landsins, því hefur einnig verið lögð áhersla á að rannsaka örverur sem lifa á hverasvæðum og á landgrunni Íslands. Hér er því verið að vinna með einstök lífefni sem ekki þekkjast annars staðar.

Líftækni og lífefnasvið Matís er leiðandi í rannsóknum og þróun á lífefnum og líftækni. Rannsóknir sviðsins beinast að því hvernig hægt sé að stuðla að sjálfbærri nýtingu íslenskrar náttúru til framleiðslu á eftirsóttum lífefnum og ensímum og hvernig nýta má andoxunar- og próteinríkar aukaafurðir sjávarafurða og stuðla þannig að virðisaukningu og fullnýtingu hráefna. Sviðið er mjög virkt í erlendu samstarfi og í nánum tengslum við matvælaframleiðendur, líftæknifyrirtæki, stofnanir og háskóla.

Til stuðnings líftæknirannsóknum var líftæknismiðja reist á Sauðárkróki og þar er ein fullkomnasta rannsóknastofa landsins sem hefur gegnt veigamiklu hlutverki í starfsemi Matís og framgangi líftæknirannsókna og nýsköpunar á Íslandi og hefur þegar skilað verðmætum.

Líftæknirannsóknir sviðsins taka mið af lífhagkerfinu og verndun þess en sífellt er unnið að því að þróa aðferðir og vinnsluferla til að skima fyrir, einangra og vinna verðmæt lífefni úr náttúrulegum hráefnum, þar sem megináhersla er lögð á vannýtt hráefni og aukaafurðir.

Við vinnslu sjávarafurða fellur til mikið magn af aukahráefni sem annað hvort er notað í verðlitlar vörur, s.s. fiskimjöl, eða fargað með tilheyrandi kostnaði og slæmum áhrifum á umhverfið. Úr þessu aukahráefni má vinna verðmætar afurðir sem t.d. má nota í fæðubótarefni og markfæði.

Við vinnslu aukaafurða skapast ekki einungis ný verðmæti heldur hefur það styrkjandi áhrif á byggðaþróun og skapar ný störf. Aukin nýting þara á Íslandi hefur til dæmis skilað verðmætum afurðum auk þess skapa störf við tínslu og verkun þangs, vinnslu lífvirkra efna og framleiðslu húðvara og stuðlað að aukinni fjölbreytni íslensks atvinnulífs.

Sérstaða Íslands þegar kemur að líftækni og lífefnum er fjölbreytileiki náttúrunnar og sérkenni landsins, því hefur einnig verið lögð áhersla á að rannsaka örverur sem lifa á hverasvæðum og á landgrunni Íslands. Hér er því verið að vinna með einstök lífefni sem ekki þekkjast annars staðar.

Niðurstöður rannsókna hafa verið vaxtarhvati fyrir íslensk sprotafyrirtæki líkt og Iceprotein og Marinox og hefur jákvæðar afleiðingar fyrir íslenskt hagkerfi. Mikið hefur áunnist í rannsóknum á virkum lífefnum úr íslensku þangi, sem er ein vannýttasta og hugsanlega ein vanmetnasta auðlind Íslands. Rannsóknir hafa sýnt að íslenskir brúnþörungar eru sérstaklega ríkir af áhugaverðum verðmætum efnum og eru fyrstu vörur sem innihalda slík efni loks komin á markað eftir áralangar rannsóknir.

Markmiðið er að vinna markaðshæfar afurðir úr þeim lífefnum sem hér er að finna og í ljósi þess að mörg þeirra hafa virkni sem þekkist ekki annars staðar eru þau þegar orðin eftirsótt af framleiðendum bæði hér heima og erlendis. Rannsóknir benda til þess að lífefnin megi nýta í matvæla- og efnaiðnaði og hefur þegar verið sýnt fram á jákvæða virkni. Lífefnin geta því gagnast við framleiðslu á heilsuvörum sem eru ætlað til að fyrirbyggja ýmsa kvilla og sjúkdóma, má þar nefna lækkun blóðþrýstings, viðspyrnu gegn krabbameini, varnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum og fleira.

Um þessar mundir vinnur faghópur um lífefni að fjölmörgum verkefnum sem tengjast þróun lífefna og lífvirkra efna. Rannsóknir á þörungum hafa skipað stóran sess og sífellt verið að finna nýjar leiðir til að hagnýta lífefni í ýmsar vörur. Þannig má nefna verkefni sem er í gangi og nefnist „Ný náttúruleg andoxunarefni úr hafinu“. Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi og unnið í nánu samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Marinox og fyrirtæki í fiskiðnaðinum, Þorbjörn í Grindavík, HB Granda og Fiskeldisstöðina Haukamýri. Í verkefninu er unnið að þróun og framleiðslu nýrra náttúrulegra andoxunarefna úr íslensku sjávarfangi til að auka stöðugleika mismunandi sjávarafurða. Verkefnið byggir á áralöngum rannsóknum á þörungum sem leiddu m.a. annars til stofnunar Marinox en fyrirtækið sérhæfir sig í rannsóknum, þróun og framleiðslu á lífvirkum efnum úr sjávarþörungum og afurðum sem innihalda slík efni. Fyrsta vörulína fyrirtækisins, UNA skincare™ húðvörurnar, kom á markað árið 2012.

Annað samstarfsverkefni Matís og Marinox og styrkt af AVS, nefnist „Aukið virði þörungavinnslu“. Eitt af markmiðum verkefnisins er að finna leiðir til að nýta aukaafurðir úr þörungavinnslunni sem ekki hafa verið nýttar hingað til í verðmætar afurðir svo sem grunnefnasambönd fyrir efna-vinnslu, burðarefni fyrir fæðubótarefni og í próteinvinnslu.

Vinnsla próteina er einnig stór hluti af starfssemi faghópsins. Matís hefur í samstarfi við MPF Ísland þróað nýja afurð - FiskiTofu. Hráefnið í FiskiTofu er próteinmassi sem er unninn með því að einangra prótein úr afskurði. Afurðin er því gott dæmi um sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda þar sem afskurður er nú oft nýttur í verðlitlar afurðir, til dæmis fóður, en hér er búin til hágæðavara sem fellur vel að þörfum nútímans.

Nánari upplýsingar veitir Hörður G. Kristinsson, sviðsstjóri Líftækni og lífefna og rannsóknastjóri Matís.


Fréttir