Matís veitir ráðgjöf til Kanada

26.1.2015

Alþjóðlegt samstarf hefur aukist jafnt og þétt í starfsemi Matís frá því að fyrirtækið tók til starfa í janúar 2007. Á þessum tíma hefur Matís m.a. átt í samstarfi við Norræna nýsköpunarsjóðinn (e. Nordic Innovation), PepsiCo., alþjóðlega sjóði um þróunaraðstoð, erlenda háskóla og Evrópusambandið, m.a. varðandi hvernig bæta mætti fiskveiðistjórnun sambandsins (EcoFishMan), svo fátt eitt sé nefnt. 

Með starfsemi Matís hefur byggst upp þekking og reynsla sem þykir orðin eftirsóknarverð og sem dæmi má nefna að s.l. föstudag  komu stjórnendur Perennia í Nova Scotia og Matís sér saman um viljayfirlýsingu um samstarf. Í þessu samstarfi felst m.a. að vísindamenn Matís veita Perennia ráðgjöf á sviði fiskvinnslu og málefni er varða bætta nýtingu hráefna úr hafinu. Samkomulagið náðist í stuttri heimsókn sendinefndar frá Nova Scotia sem naut forystu Keith Colwell sjávarútvegsráðherra Nova Scotia.

Fridrik Fridriksson, stjórnarformaður Matís og Keith Colwell, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála í Nova Scotia, takast í hendur við undirritun viljayfirlýsingarinnar. Aðrir á mynd eru (frá vinstri): Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Stewart Wheeler, sendiherra Kanada á Íslandi og Jo Ann Fewer, forstjóri Perennia.

Sendinefndinni gafst kostur á að heimsækja nokkur af leiðandi fyrirtækjum íslensks sjávarútvegs og hitta að máli forsvarsmenn fjölbreytts hóps fyrirtækja með sjávarútvegstengda starfsemi, undir forystu framkvæmdastjóra samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, auk fulltrúa atvinnuvega og nýsköpunarráðu-neytisins og Háskóla Íslands.

Gestirnir voru hrifnir af samþættingu hagnýtra verkefna og fræðilegra rannsókna meistara- og doktorsnemenda í samstarfi við viðskiptavini Matís.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Hluti erlendra og innlendra samstarfsaðila Matís.


Fréttir