Meirihlutinn í Marinox seldur

26.2.2015

Gengið hefur verið frá samningi um kaup írska fyrirtækisins Marigot, eiganda Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal, á 60% hlut í nýsköpunarfyrirtækinu Marinox ehf., sem er í eigu Matís ohf. og tveggja lykilstjórnenda þar. Gefið verður út nýtt hlutafé fyrir hlut Marigot í kjölfarið.

Matís hefur í gegnum tíðina skapað sér öflugt orðspor á vettvangi rannsókna og nýsköpunar í matvælaframleiðslu og líftækni. Oftar en ekki hefur verið um að ræða afurðir sem hafa verið vannýttar og má þar nefna þang og þara sem starfsemi Marinox hefur einmitt byggst í kringum. Matís hefur þannig haft aðkomu að fyrirtækjum sem freistast hafa til þess að búa til verðmæti úr vannýttri auðlind sem aðrir hefðu ekki sýnt áhuga að nýta. Með því að styðja við nýsköpun starfsmanna Matís með þessum hætti er búinn til hvati fyrir rannsakendur hjá fyrirtækinu að fara lengra með sína vinnu og búa til úr henni verðmæta vöru, atvinnulífinu öllu til heilla. Slíkt fyrirkomulag hefur lengi tíðkast um heim allan og hér á landi einnig, til dæmis innan háskólasamfélagsins.

Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís
og Frank O'Sullivan, fjármálastjóri Marigot

Á sama tíma og það hefur verið keppikefli Matís að aðstoða frumkvöðla og fyrirtæki við að taka fyrstu skrefin í verðmætri matvælaframleiðslu og líftækni þá hefur það aldrei staðið til að Matís sé með eignarhlut í sprotafyrirtækjum til lengri tíma. Mikilvægt er að frumkvöðlar og fyrirtæki fá þá sérfræðiaðstoð sem Matís hefur upp á að bjóða einungis í þann tíma sem nauðsynlegur er og að Matís selji svo hlut sinn í fyrirtækjunum. Gott dæmi um slíkt ferli og aðkomu Matís er nýsköpunarfyrirtækið Iceprotein á Sauðárkróki sem selt var til FISK-Seafood ehf. árið 2012.

Nú er komið að sölu hlutafjár í vinnsluhluta Marinox. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þang og þara. Fyrirtækið verður því rekið áfram með sama nafni en með nýjum ráðandi hluthafa. Samhliða hlutafjáraukningu í Marinox verður húðvörulínan, UNA Skincare, skilin frá fyrirtækinu og sett í nýtt félag, sem til að byrja með verður í eigu sömu aðila og eiga Marinox nú. Í beinu framhaldi verður leitað að nýjum fjárfestum í UNA Skincare.

Matís fagnar þessum áfanga og lítur björtum augum til þeirra tækifæra sem opnast fyrir Marinox og Matís í samstarfi við írska fyrirtækið, sem þegar hefur getið sér gott orð hér á landi.

Nánari upplýsingar veitir Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís (896-7350). 


Fréttir