Einstakt tækifæri til að stuðla að auknum heilindum matvæla

26.6.2015

Matís hvetur alla áhugasama aðila til að skrá hugmyndir sínar sem stuðlað geta að auknum heilindum í virðiskeðjum matvæla. Matís sem formlegur þátttakandi í verkefninu MatarHeilindi mun ekki keppa um þá fjármuni sem hér eru boðnir til afmarkaðra rannsókna á sviði MatarHeilinda enda var það aldrei ætlunin. Í samræmi við áform þátttakenda í verkefninu er hér verið að opna samstarfið með þessum hætti fyrir utanaðkomandi aðilum.

Sem virkur þátttakandi í verkefninu MatarHeilindi (e.FoodIntegrity) vekur Matís athygli á einstöku tækifæri sem nú býðst utanaðkomandi aðilum. Frá upphafi verkefnisins (í ársbyrjun 2014) hefur verið stefnt að því að hleypa utanaðkomandi aðilum að verkefninu. Nú er komið að því. Áhugasamir aðilar geta tilkynnt áhuga um að tengjast verkefninu og nýta fjármuni sem verkefnið hefur yfir að ráða til að vinna rannsókn sem þjónar sama tilgangi og heildarverkefnið.

Áhugasamir aðilar þurfa að senda inn hugmyndir sínar í samræmi við lýsingu á vefsíðu verkefnisins fram til 14. ágúst kl. 15:00 að íslenskum tíma. Enginn þeirra 38 aðila sem eru með formlegum hætti tengdir verkefninu MatarHeilindi geta skráð sínar hugmyndir. Þetta er opin aðkoma fyrir hugmyndir (verkefni) sem lúta að Stöðlun og samræmingu, nýjum lausnum til að tryggja heilindi matvæla, hagkvæmniathugun á hvernig megi deila upplýsingum meðfram virðiskeðjum matvæla og hraðvirkum árangursríkum aðferðum til greiningar á svikum. Fjármögnun til framkvæmdar rannsókna á framangreindum sviðum er áætluð 3 milljónir €.  Stuðningur við rannsóknatengdan kostnað í verkefnum er fást við hagkvæmniathugun getur numið allt að 250 þúsund €, fyrir verkefni er fjalla um stöðlun og samræmingu annars vegar og nýjar lausnir hins vegar getur stuðningur mögulega numið allt að hálfri milljón € og fyrir verkefni er snúa að hraðvirkum lausnum getur stuðningur mögulega numið allt að 750 þúsund €.

Verkefnið er leitt af Fera, bresku matvæla- og umhverfisrannsóknastofnuninni. MatarHeilindi fást við að matvæli séu heil/óskert eða í fullkomnu ástandi þ.e.a.s. að kaupendur fái örugglega afhenta þá vöru sem þeir telja sig vera að kaupa. Veita þarf neytendum eða öðrum hagsmunaaðilum í virðiskeðju evrópskra matvæla fullvissu um öryggi, áreiðanleika og gæði. Heilindi innan matvælaiðnaðarins er lykilatriði til verðmætaaukningar í lífhagkerfi álfunnar. Heiðarleika evrópskra matvæla er stöðugt ógnað af sviksamlegum merkingum eða eftirlíkingum sem seldar eru til að njóta ávinnings þess virðisauka. Verkefninu er ætlað að vera þungamiðja í alþjóðlegri samhæfingu við nýtingu rannsókna og þróunar í að tryggja heiðarleika evrópskra matvæla með þátttöku kjarnahóps verkefnisins. Fera hefur umsjón með þessum þætti verkefnisins.

Matís sinnir hlutverki sínu, að auka verðmæti matvæla, stuðla að matvælaöryggi og bættri lýðheilsu með þróunar- og rannsóknastarfi, með að hvetja áhugasama aðila til að skoða kosti þess að skrá hugmyndir sínar í tæka tíð og nota þar með þetta tækifæri.

Fagstjóri Virðiskeðju og sjálfbærni Jónas Rúnar Viðarsson er ábyrgur fyrir þátttöku Matís í verkefninu MatarHeilindi.
Fréttir