Undirbúningur SeafoodPlus á lokastigi

26.11.2003

Sem kunnugt er tekur Rf þátt í verkefninu SeafoodPlus, en það er eitt af sex matvælaverkefnum sem ESB mun styrkja á næstu árum og jafnframt stærsta einstaka verkefnið sem Rf hefur tekið þátt í.  Áformað er að verkefnið hefjist formlega um næstu áramót, en undirbúningur verkefnisins er vel á veg kominn.

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf, situr í stjórn verkefnisins og er nýkomin af sjórnarfundi sem haldinn var í Madrid 20-21 nóvember s.l.  Hún segir að þó svo undirbúningi miði vel séu ýmsir lausir endar sem nauðsynlegt sé að ganga frá við yfirvöld í Brussel áður en verkefnið hefst formlega, enda sé umfang þess mikið. 

Sjöfn segir nauðsynlegt að vanda vel undirbúning svona risaverkefnis, að því munu koma á milli 60 og 70 aðilar frá 18 löndum og mun vinna við verkefnið standa yfir í 5 ár þannig að í mörg horn er að líta.

SeafoodPlus er í raun samheiti 22 mismunandi verkefna sem hafa það meginmarkmið að auka neyslu á fiski, rannsaka áhrif hans á heilsu og vellíðan fólks, stuðla að auknu öryggi sjávarafurða og frekari fullvinnslu sjávarfangs.

Heimasíða SeafoodPlus

1. tbl. fréttabréfs SeafoodPlus


Fréttir