• Lodna

Geta íslenskar lækningajurtir aukið verðmæti loðnulýsis?

18.12.2003

Menn hafa lengi velt því fyrir sér hvort og hvernig auka megi verðmæti uppsjávarafla, s.s. loðnu, síldar og kolmunna, en megnið af þessum tegundum eru í dag bræddar og nýttar í fóðurlýsi og mjöl. Í nýlegri rannsókn á Rf var rannsakað hvort nota mætti hefðbundnar íslenskar lækningajurtir og þörunga til að auka geymsuþol loðnulýsis og auka þannig verðmæti þess.

Þetta kemur m.a. fram í skýrslu sem nefnist Áhrif þörunga og lækningajurta á geymsluþol loðnulýsis og er eftir Margréti Bragadóttur, matvælafræðing á Rf. Í rannsókninni á Rf vorur prófaðar ýmsar þekktar lækninga- og heilsujurtir s.s. hvönn, birki, blóðberg, lúpína og fjallagrös, auk þörunga sem hafa verið nýttir til matar hér á landi eða líkjast þeim tegundum sem t.d. Japanir borða.

Geymsluþol lýsis, miðað við jurtaolíur, er mjög takmarkað og hefur það þar af leiðandi einkum verið notað til inntöku sem meðalalýsi eða hert til smjörlíkisgerðar. Frekari notkun á lýsi til manneldis byggist á því að hægt sé að hindra að það þráni. Notkunarmöguleikar á loðnulýsi til manneldis eru að mestu ókannaðir, en ástæða er til að ætla að nýta megi það í mun verðmætari afurðir en nú er gert og stórauka þannig verðmæti loðnuafurða. Með því að huga betur að vinnslu- og geymsluþáttum má hugsanlega þróa loðnulýsi með bragðgæði sem jafnast á við matarolíu, en grundvallaratriði í slíkri vöru er samt sem áður að geymsluþolið sé viðunandi.

Þó svo innihaldsefni þeirra jurta og þörunga sem prófuð voru í fyrrgreindri rannsókn á Rf  hafi almennt ekki sýnt jákvæðar niðurstöður varðandi loðnulýsi, reyndust þau innihalda mikið af vatnsleysanlegum þráahindrum sem sýndu töluverða virkni í ýrulausn af fitu og vatni. Því er hugsanlegt að heilsujurtir eins og birkilauf og blóðberg megi nýta og til þráavarnar og bragðbætis í ýrulausnum, eins og salatsósum eða öðrum fituríkum afurðum sem innihalda bæði vatn og fitu.

Þar sem um forverkefni er að ræða nýtast niðurstöður þess einkum sem undirbúingur og grunnur fyrir áframhaldandi rannsóknir á þessu sviði.  Afrakstur þessa verkefnis er því dýrmæt reynsla og undirbúningur fyrir frekari rannsóknir á loðnulýsi til manneldis, en verkefni með því nafni hlaut í þessum mánuði styrk úr AVS rannsóknarsjóði Sjávarútvegsráðuneytisins.


Fréttir