Rúmlega 30 skýrslur komu út árið 2003
Nokkrar skýrslur (7) voru reyndar hluti af sömu rannsókninni, en þar var um að ræða mjög viðamikla rannsókn á léttpæklun (lageringu) þorskflaka fyrir frystingu og áhrif léttsöltunar á gæði og nýtingu frystra afurða.
Þá má nefna þrjár skýrslur um ORKUSPAR-verkefnið, en þar var markmiðið að hanna hugbúnað (orkuhermi) til notkunar í skipum og fiskvinnslum og sem auðvelda á að reikna út og minnka olíunotkun verulega.
Umhverfismál verða sífellt fyrirferðameiri í umræðunni og á það ekki hvað síst við í matvælaiðnaði. Nokkrar skýrslur sem tengjast þessum málaflokki voru gefnar út árið 2003 og vakti ein þeirra, Life Cycle Analysis of Icelandic frozen Cod Products, nokkra athygli en í henni komu m.a. fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar um áhrif þess og kostnað við að veiða fisk og skila honum á disk neytenda erlendis.
Loks má nefna nokkrar skýrslur er fjalla með einum eða öðrum hætti um heilnæmi og öryggi sjávarfangs, hreinlæti og hönnun vinnslubúnaðar í fiskvinnslum. Þá má geta þess að rannsóknir í fiskeldi verða sífellt fyrirferðameiri eftir því sem þeirri atvinnugrein vex meira fiskur um hrygg hér á landi. Rf hefur komið talsvert við sögu við rannsóknir á bakteríum í umhverfi og fóðri lúðulirfa, en þar hafa Íslendingar náð betri árangri við fjöldaframleiðslu lúðuseiða en fyrirtæki á sama sviði í Noregi, Skotlandi og Kanada.
Loks má geta að margir eru bjartsýnir á að þorskeldi geti skilað góðum árangir hér á landi og hefur Rf þegar tekið þátt í rannsóknum á því sviði. Fyrsta skýrsla ársins 2004 ber vott um þetta, en hún nefnist Áframeldi smáþorsks: Áhrif fóðrunar á vinnslueiginleika.
Nánari upplýsingar um útgefnar skýrslur á Rf er að finna undir "Útgáfa"