• Algae, omega-3 fatty acid source, health, marine algae, anti-oxidant

Aukið verðmæti tilbúinna rétta sem auðgaðir hafa verið með hráefnum úr hafinu

28.6.2016

Fyrir nokkru lauk EnRichMar verkefninu sem leitt var af Matís. Verkefnið gekk út á það að auðga matvæli með hollustu úr hafinu en verkefnið var hluti af 7. rannsóknaáætlun Evrópu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki (FP7 SME).

Markmið verkefnisins var að auka verðmæti tilbúinna matvæla með því að auðga þau með hráefnum og innihaldsefnum úr vanýttum sjávarafurðum og hliðarhráefnum frá fiskvinnslum. Áhersla var lögð á ómega-3 fitusýrur og þörungaþykkni sem geta haft aukin og jákvæð áhrif á hollustu og stöðugleika matvælanna og aukið bragðgæði þeirra.

Niðurstöður

Verkefnið hefur skapað ný viðskiptatækifæri innan og utan þess hóps sem tók þátt í EnRichMar. Þau þátttökufyrirtæki sem framleiða lífvirk efni hafa færst skrefi framar og hafa markaðssett lífvirk efni fyrir margskonar fæðutegundir á nýja ábatasama markaði. Einnig hefur fjölbreytni í framleiðslu lífvirkra efna aukist vegna fyrirhugaðrar markaðssetningar á nýjum tilbúnum réttum sem þróaðir voru í tengslum við verkefnið. Þátttökufyrirtækin hafa aflað sér verðmætra markaðsupplýsinga um markfæði, skoðanir neytenda á markfæði á mikilvægum mörkuðum og þróað auðguð matvæli sem byggð eru á upplýsingum sem fengnar eru frá helstu markhópum. Auk þessa hafa þátttakendur upplýsingar frá fyrstu hendi um lífeðlisfræðileg áhrif af neyslu auðgaðra matvæla. Grundvallaratriði fyrir hvert og eitt þátttökufyrirtæki var að þróa nýtt og verðmætara viðskiptamódel sem mun hafa jákvæð áhrif á afkomu þeirra í framtíðinni.

Aukið verðmæti hráefna og framleiðsluvara mun leiða til aukinnar fjölbreytni í hollari tilbúnum réttum og getur þannig stuðlað að bættri lýðheilsu. Niðurstöðurnar eru einnig mikilvægar fyrir evrópskan sjávarútveg og nýtingu sjávarauðlinda vegna aukins verðmætis úr hliðarstraumum frá sjávarútvegi og vannýttum sjávarauðlindum.

Þess má geta að upphaf þessa verkefnis má rekja til styrkveitingar frá Aukið verðmæti sjávarfangs sjóðnum (AVS). Í kjölfarið vaknaði áhugi á Norðurlöndunum á verkefninu og úr varð samskonar verkefni sem styrkt var af Norden, Nordic Innovation, Norræna nýsköpunarsjóðnum. Að lokum stækkaði verkefnið enn frekar, og enn bættist í hóp þátttakenda, og úr varð EnRichMar verkefnið sem um er fjallað í þessari frétt.

Tveir íslenskir þátttakendur voru í verkefninu auk Matís. Marinox og Grímur kokkur voru með frá upphafi og er óhætt að segja að ávinningurinn hafi verið verulegur fyrir þessa íslensku þátttakendur:

Grímur kokkur, Grímur Gíslason:

"Það hefur verið mjög mikilvæg fyrir fyrirtæki okkar að vera hluti af EnRichMar og samstarfið var mjög gott. EnRichMar hefur opnað fyrir útflutningstækifæri, hjálpaði okkur að gera hollan mat hollari, og leysa vandamál sem tengjast framleiðslu á máltíðum sem innihalda ómega fitusýrur. Við munum markaðssetja tvær vörur þróaðar í verkefninu í sumar"

Marinox, Rósa Jónsdóttir:

“EnRichMar verkefnið hefur meginþátturinn í því að Marinox gat skalað upp framleiðslu á lífvirku þangþykkni og einnig höfum við fengið mikilvægar upplýsingar um samsetningu, virkni og klínískan ávinning af þangþykkninu. Ennfremur hefur þátttakan stutt Marinox í viðskiptaþróun þar sem það hefur opnað fyrir ný markaðstækifæri, veitt okkur mikilvæga innsýn í markað fyrir fæðuhráefni og aukefni og einnig sterk tengsl við nýja samstarfsaðila í rannsóknum og viðskiptum“

Lista yfir alla þátttakendur og umsagnir þeirra má finna á einblöðungnum Increased value of convenience foods by enrichment with marine based raw materials.

Nánari upplýsingar veitir dr. Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri EnRichMar. Meira um EnRichMar.


Fréttir