Áherslubreytingar á Rf

2.2.2004

Töluverðar breytingar munu verða á starfsemi Rf á næstu mánuðum, sérstaklega hvað varðar starfsemi á útibúum Rf. Markmið breytinganna er annars vegar að auka vægi rannsókna og þróunar í starfsemi Rf og jafnframt að draga úr samkeppnisrekstri.

Í framtíðinni verður aukin áhersla lögð á rannsóknir á útibúum Rf í Vestmannaeyjum, Ísafirði og Akureyri auk Reykjavíkur. Áfram verða reknar þjónustumælingar á Neskaupsstað og Reykjavík þar sem mælingar eru nauðsynlegur þáttur í flestum rannsóknum og auk þess hefur Rf jafnframt verið eini aðilinn hér á landi sem boðið hefur upp á ýmsar sérhæfðar og óarðbærar mælingar fyrir matvælafyrirtæki, auk algengari mælinga. 

Vegna ofangreindra breytinga var 8 manns á þjónustusviði Rf á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum sagt upp störfum 1. febrúar s.l.  Reyndar fækkar stöðugildum ekki sem þessum fjölda nemur, enda voru nokkrir af viðkomandi stafsmönnum í hlutastarfi hjá Rf. Þjónustumælingar munu verða í gangi hjá Rf á viðkomandi útibúum fram til 1.maí n.k.  

Sem fyrr segir verður aukin áhersla lögð á rannsóknir í útibúum Rf í framtíðinni og verður nýtt starfsfólk ráðið til samræmis við það. Samráð mun verða haft við heimamennn um þær áherslur í rannsóknum sem Rf mun hafa á hverjum stað.  Þá mun Rf kappkosta að aðstoða heimamenn á hverjum stað við að finna farsælustu lausnina hvað mælingar varðar, þannig að fyrirtækin geti hér eftir sem hingað til fengið þá þjónustu sem þau þarfnast.  

Rf mun áfram verða með starfsemi á öllum útibúum sínum og mun vinna áfram náið með fyrirtækjum í sjávarútvegi og öðrum matvælafyrirtækjum að því að auka verðmæti í sjávarútvegi.

Frekari upplýsingar um breytingarnar veitir Sjöfn Sigurgísladóttir, s.: 8938251


Fréttir