• Skynmat

Rf tekur þátt í norrænni rannsókn á neysluvatni

10.2.2004

Nýlega hófst verkefni á Rf sem felur í sér þátttöku í norrænni aðferðaþróun á neysluvatni  á vegum NMKL (Norræna matvælarannsóknanefndin). Verkefnið er styrkt af EK-LIVS ( Norræna embættisnefndin um matvæli). Þess má geta að hér á landi er neysluvatn skilgreint sem matvæli og í gildi er sérstök reglugerð sem kveður á um gæði þessi og öryggi fyrir neytendur. 

Meginframlag Rf í verkefninu er þátttaka skynmatshóps Rf í samanburðarprófi á neysluvatni. Vel þjálfaður skynmatshópur hefur starfað á Rf um árabil og er hlutverk hans m.a. að meta matvæli í þeim verkefnum sem Rf vinnur að, en hópurinn er einnig oft fenginn til að meta matvæli fyrir fyrirtæki sem eru að þróa nýjar vörur.

Þátttakendur í fyrrgreindu verkefni um neysluvatn eru auk Íslendinga, frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Aðferðahöfundur og stjórnandi verkefnisins er Urd Bente Andersen frá norsku landsnefndinni innan NMKL. Tengiliður fyrir hönd Íslands er Ása Þorkelsdóttir, matvælafræðingur á Rf, asa@rf.is 

Í verkefninu eru skynmatshópar þjálfaðir í að þekkja neysluvatn og þeim kynntar aðferðir við skynmat á neysluvatni. Sýni eru síðan send samtímis frá Norsk matanalyse til þátttakenda sem meta þau eftir sömu aðferð. Framkvæmd skynmatsins og niðurstöður þess eru innlegg  í aðferðaþróunina.


Fréttir