• Þátttakendur í Fishnose

Fisknefið þefar uppi skemmdan lax

17.2.2004

Nýlega var haldinn í Bremerhaven í Þýskalandi fundur í verkefninu Fishnose, en það fjallar um notkun rafnefs til að meta gæði reykts lax. Verkefnið felst í því að þróa/aðlaga rafnef frá fyrirtækinu AlphaMOS í Frakklandi til að meta reyktan lax, þ.e. hvort laxinn er farinn að skemmast.

Ákveðnum áfanga hefur nú verið náð í verkefninu því búið er að þróa fyrstu frumgerð af tækinu og er það með sérhæfðan sýnatökubúnað fyrir rokgjörn efni. Benda fyrstu niðurstöður til að tækið geti greint skemmdareinkenni í reyktum laxi.

Þátttaka Rf í verkefninu felst m.a. í því að skilgreina gæði vörunnar m.t.t. efnainnihalds og stöðugleika, þar sem mældar eru örverur, efnaniðurbrot og samhliða er gert skynmat. Í þessu sambandi má geta þess að nauðsynlegt er að þekkja vel samsetningu á rokgjörnum efnum við geymslu á laxi, en Rf hefur einmitt sérhæft sig í gasgreinimælingum á rokgjörnum lyktarefnum. Rokgjörn efni myndast m.a. við niðurbrot og skemmd í matvælum. Þau valda einkennandi ferskleikalykt (ilm) á meðan hráefnið er nýtt, en seinna skemmdar- eða ýldulykt er líða tekur á geymslutímann. Rafnefið getur greint þessi efni á fljótvirkan hátt og þannig metið gæði vörunnar.

Verkefnið er CRAFT-verkefni á vegum Evrópusambandsins, en það eru verkefni sem miða að því að hvetja lítil fyrirtæki til þátttöku í rannsóknar- og þróunarstarfi. Íslenska fyrirtækið Reykofninn tekur þátt í Fishnose-verkefninu og sér um að útvega hráefni í rannsóknir og aðstoða við að skilgreina gæði vörunnar.Verkefnisstjóri í Fishnose af hálfu Rf er Guðrún Ólafsdóttir, en auk hennar sótti Rósa Jónsdóttir frá Rf fundinn í Bremerhaven.

Guðrún hefur sérhæft sig í ferskleikamælingum á matvælum og nýlega birtist t.a.m grein, sem hún er aðalhöfundur að í vísindatímaritinu Trends in Food Science & Technology.  Nefnist greinin Multisensor for fish quality determinationLesa grein.

Heimasíða FISHNOSE


Fréttir