• Rósa, Jörg og Guðrún

Fyrirtæki frá Asíu í sviðsljósinu á sjávarútvegssýningunni í Bremen

18.2.2004

Sjávarútvegssýningin í Bremen, sem haldin er annað hvert ár, var haldin um síðustu helgi. Að sögn Guðrúnar Ólafsdóttur og Rósu Jónsdóttur, starfsmanna á Rf sem skoðuðu sýninguna, vakti það sérstaka athygli þeirra hversu mörg og áberandi fisksölufyrirtæki frá Asíu voru meðal sýnenda.

Þessi fyrirtæki kynntu m.a. ýmsar nýjar fisktegundir sem stílaðar eru á Evrópumarkað, t.d. heitsjávarfisktegundir (heilar, frosnar og ferskar). Einnig buðu þau upp á ýmsar unnar vörur, frosin flök og valda bita, sem bæði voru pakkaðar í neytendapakkningar og í stærri pakkningar fyrir veitingahús.

Á meðal þess sem vakti athygli íslensku gestanna má nefna ýmsa tilbúna fiskrétti s.s. ýmiss konar fisksalöt í legi/olíu í veitingahúsapakkningum, heitreyktar og kaldreyktar afurðir, t.d. heitreyktur lax.  Einnig vakti athygli þeirra tækjabúnaðar fyrir matvælavinnslu, t.d. pökkunarvélar og síðast en ekki síst hugbúnaður fyrir skráningar varðandi rekjanleika.

Á sýningunni í Bremen voru einnig flutt mörg erindi og hlýddu þær Guðrún og Rósa m.a. á erindi um fiskeldi og mælingar á mengunarefnum og jákvæðum innihaldsefnum í fiski úr vistvænu og hefðbundum eldi og úr villtum laxi.  Að sögn þeirra vakti það eftirtekt að í erindinu kom m.a. fram að ekki reynist vera munur á mengunarefnum og  innihaldsefnum í eldisfiski sem ræktaður var á vistvænan hátt og í fiski sem alinn er á hefðbundinn hátt.

WEFTA var með bás á sýningunni en Rf er aðili að þeim samtökum.  Á meðal verkefna sem kynnt voru á bás WEFTA var verkefnið QIMCHAIN, en Rf hefur átt drjúgan þátt í því.


Fréttir