• Eva Yngvadóttir

Á vistferilgreining erindi í sjávarútvegi?

20.2.2004

Nýlega lauk 3. ára norrænu verkefni sem Rf stjórnaði, þar sem reynt var að meta hvort hægt sé að nota vistferilgreiningu (Life Cycle Assessment) til að meta heildarumhverfisáhrif fiskveiða og fiskvinnslu.

Vistferilgreining er aðferðarfræði sem á rætur sínar að rekja til 8. áratugar síðustu aldar, en þá fóru vísindamenn frá ýmsum löndum að taka höndum saman í leit að aðferð til að meta á raunhæfan hátt heildaráhrif og kostnað við það að framleiða einhverja tiltekna afurð (eða þjónustu). Þetta var fólk með mismunandi sérþekkingu s.s. líffræðingar, efna- og eðlisfræðingar o..s.frv. Síðan þá hefur þessi aðferðarfræði verið í örri þróun og hefur verið notuð með góðum árangri í mörgum framleiðslugreinum, þar á meðal í matvælaiðnaði, t.d. mjólkuriðnaði.

Áhöld hafa verið uppi um hvort hægt væri að nota þessa aðferðafræði í sjávarútvegi, þar sem erfitt er að meta mikilvæga þætti sem vissulega skipta máli ef hægt á að vera að tala um heildarumhverfisáhrif í þessari atvinnugrein. Má þar nefna þætti eins og áhrif veiða á sjávarbotninn og áhrif brottkasts á vistkerfið. Í norræna verkefninu var einmitt reynt að kanna hvort þetta væri gerlegt og hvort einfalda þyrfti vistferilgreininguna til að koma henni við í sjávarútvegi.  Þess má geta að í fyrra kom út skýrsla þar sem reynt var að nota vistferilgreiningu til að meta heildarumhverfisáhrif þess að veiða þorsk á Íslandsmiðum og flytja hann á borð neytenda í Bretlandi.

Að sögn Evu Yngvadóttur, efnaverkfræðings á Rf, sem stýrði verkefninu, þá er gert ráð fyrir að framhald verði á samstarfi norrænu vísindamannanna, enda æskilegt að vera í fararbroddi á þessu sviði, sérstaklega fyrir þjóðir sem eiga mikið undir sjávarútvegi og fiskvinnslu eins og til að mynda Íslendingar og Norðmenn.

Lokaskýrslan úr norræna vistferilverkefninu


Fréttir