• Ce tæki til að mæla peptíð

Nýtt tæki á Rf mælir lífvirk efni úr kolmunna

24.2.2004

Verið er að taka í notkun á Rf nýtt tæki, Capillary electrophoresis, sem m.a. verður notað til að rannsaka hvort hægt sé að mynda peptíð með lífvirkni úr kolmunna. Lífvirkni er forsenda þess að unnt sé að nota kolmunna sem markfæði.

Peptíð geta haft líffræðilega virkni (lífvirkni eða bioactive properties). Sem dæmi um eiginleika sem peptíð eru talin geta haft má nefna áhrif til lækkunar á blóðþrýsting og áhrif á ensím í efnaskiptum við niðurbrot fitu í líkamanum.

Hægt er að nota hárpípu rafdráttartækni (capillary zone electrophoresis-CE) til að mæla peptíð og hlaut Rf í fyrra styrk úr tækjakaupasjóði Rannís til kaupa á sérstöku tæki til að geta framkvæmt slíkar mælingar. Aðferðin byggist á aðskilnaði efna með hárpípu rafdrætti og greiningu með s.k. diode array-detector skynjara.

Þess má geta að mjólkurvörur með mikið magn peptíðanna IPP og VPP hafa verið á markaði erlendis um nokkurt skeið og nú nýverið setti Mjólkursamsalan á markað hér á landi afurð sem nefnist LH-mjólkurdrykkurinn, sem m.a. er auglýstur þannig að hann hafi þá eiginleika að geta klofið mjólkurprótein þannig að lífvirk peptíð verða til.

Rannsóknir benda til að peptíð úr sjávarfangi hafi, líkt og peptíð úr mjólkurvörum, lífvirkni, sem opnar fyrir þann möguleika að hægt sé að nota þau í matvæli og stórauka þar með verðmæti fisktegunda sem nú fara að mestu í bræðslu, svo sem kolmunna. Einnig er hugsanlegt að nýta megi aukahráefni úr fiskvinnslu í þessum tilgangi. 

Framleiðandi tækisins er Agilent Technologies og kom fulltrúi fyrirtækisins hingað til lands til að setja upp tækið. PharmaNor hf. hefur umboð fyrir tækið hér á landi. 


Fréttir