• Lógo Flair Flow

Flair Flow-verkefnið í óvissu

2.3.2004

Flair Flow er heiti á Evrópusambandsverkefni sem hófst fyrir 12 árum og hafði þann tilgang að miðla upplýsingum úr þeim rannsóknum sem ESB styrkir og tengjast matvælaiðnaði. Til stóð að verkefninu lyki um síðustu áramót en nú virðist sem ekki séu allir á eitt sáttir með það.

Rf gerðist þátttakandi í Flair Flow 1994 og hefur síðan dreift upplýsingablöðum, s.k. einblöðungum, til á annað hundrað fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem tengjast matvælaiðnaði hér á landi. Þá hefur Rf staðið fyrir ráðstefnum og fræðslufundum (workshops) undir merkjum FF og fengið ýmsa þekkta erlenda fyrirlesara hingað til lands.

Þegar 6. rannsóknaráætlun ESB (2002-2006) var í burðarliðnum ákváðu ráðamenn ESB að breyta talsvert áherslum, hafa verkefnin fá en stór og að aðilar þeirra myndu sjálfir sjá um að koma rannsóknarniðurstöðum á framfæri.

Reyndar voru ekki allir jafn sannfærðir um ágæti þess að leggja niður svo rótgróið tengslanet sem FF er og sem tekið hafði meira en áratug að byggja upp í yfir 20 Evrópulöndum. Þá var og bent á að eftir væri að miðla talsvert af upplýsingum úr rannsóknum 5. rammaáætlunarinnar.  

Eitthvað virðast ráðamenn í Brussel vera að endurmeta stöðuna, a.m.k. hafa nú borist 4 nýir einblöðungar og er hægt að nálgast þá hér.  Segja þeir frá verkefnum er tengjast notkun rafnefs í matvælaiðnaði, rannsóknum á offitu, mælingar á díoxín og loks fjallað um hvernig fækka megi tilfellum af sykursýki.  


Fréttir