• Blóðgun og slæging

Nýr bæklingur um meðhöndlun á fiski

4.3.2004

Rf hefur gefið út bæklinginn Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski, sem, eins og titillinn gefur til kynna, fjallar um mikilvægi fyrstu meðhöndlunar á fiski eftir að hann veiðist, svo sem blóðgun, slægingu, þvott og kælingu. Þessi grundvallaratriði skipta höfuðmáli um það hversu mikil verðmæti hægt er að gera úr fiski. 

Það hljómar dálítið undarlega, en það kemur ennþá dálítið flatt upp á marga hér á landi þegar rætt er um að Ísland sé fyrst og fremst matvælaframleiðsluland. Fiskur er að sjálfsögðu matvæli, reyndar það hráefni sem við eigum mest undir í okkar þjóðarbúskap.   

Sama lögmál gildir um alla matvælaframleiðslu, gæði afurðanna ráðast af því hversu gott hráefnið er. Náttúrulegir þættir hafa mikil áhrif í matvælaiðnaði, í landbúnaði má t.d. nefna sjúkdóma, þurrka, flóð, næturfrost og skordýraplágur.  Hvað sjávarfang varðar hafa þættir eins og hitastig sjávar og fæðuframboð áhrif á stærð og ástand fiskistofna, en einnig skiptir mannlegi þátturinn miklu, þ.e. hvernig við meðhöndlum fiskinn.

Aukin samkeppni að undanförnu á helstu mörkuðum okkar fyrir sjávarafurðir hefur í auknum mæli beint augum manna að þeim möguleikum sem felast í vinnslu og útflutningi á ferskum fiski og sjávarafurðum. Þar skiptir geymsluþol fisksins miklu máli, kaupendur eru væntanlega viljugri til að greiða hærra verð fyrir vöru sem "lifir" í versluninni í 12-15 daga í stað 7-9 daga og þar skiptir fyrsta meðhöndlun fisksins öllu. 

Það er AVS-rannsóknarsjóður í sjávarútvegi sem styrkti gerð bæklingsins Mikilvægi góðrar meðhöndlunar á fiski.  Bæklingurinn er ókeypis og til stendur að dreifa honum til sjómanna um land allt á næstunni.  Einnig er hægt að nálgast hann (Pdf-skjal) með því að smella hér.           


Fréttir