• QIM Handbækur

Handbók um skynmat á 11 tungumálum

26.4.2004

Handbókin Skynmat á ferskum fiski eftir Emilíu Martinsdóttur, efnaverkfræðing á Rf, kom út árið 1995 og var hún hluti af ritröð er nefndist Handbók fiskvinnslunnar, en á meðal annarra rita í þeim flokki má t.d. nefna handbækur um skreiðarvinnslu og saltfiskverkun.  Af þessum ritum má segja að Skynmat á ferskum fiski hafi slegið rækilega í gegn en nú er búið að gefa bókina út á 11 tungumálum.  

Skynmat á fiski fjallaði einkum um skynmat á heilum fiski en einnig um mat á flökum, bæði hráum og soðnum og voru 5 algengum nytjafisktegundum hér við land (þorsk, ýsu, karfa, ufsa og skarkola) gerð þar skil. Árið 2001 kom síðan bókin út á ensku og nefndist Sensory Evaluation of Fish Freshness og var þá jafnframt búið að bæta við umfjöllun um ýmsa nytjafiska sem algengir eru á fiskmörkuðum í Evrópu og voru fisktegundirnar því orðnar alls 12. 

Vegna mikils áhuga víða á bókinni var ákveðið að gefa hana út á fleiri tungumálum, enda hefur hún nú þegar verið seld til aðila í fiskiðnaði í flestum heimsálfum.  Nýju útgáfur handbókarinnar verður m.a. kynnt sérstaklega á sjávarútvegssýningum í Brussel í næstu viku.  Þau tungumál sem nú hafa bæst við íslensku og ensku útgáfurnar eru danska, franska, gríska, hollenska, ítalska, norska, portúgalska, spænska og þýska.

Þess má geta að útgáfa handbókarinnar er hluti verkefnanna QIM Eurofish og QIMCHAIN sem Rf er þátttakandi í.   
Fréttir