• Námskeið fyrir starfsfólk fiskmarkaða

Rf stendur fyrir námsstefnu í Brussel

28.4.2004

Rf verður með bás á sýningarsvæði Útflutningsráðs Íslands á Sjávarútvegssýningunni í Brussel 4.-6. maí. Miðvikudaginn 5. maí mun Rf standa að námsstefnu um mat á ferskum fiski og er aðgangur ókeypis, en áhugasamir eru hvattir til að skrá sig fyrirfram. Vitað er að fjöldi Íslendinga mun heimsækja sýninguna, m.a. verður leiguflug héðan á mánudag.

Rf hefur um nokkurra ára skeið stjórnað fjölþjóðlegu verkefni, QIMCHAIN, um þróun aðferðar til að meta ferskan fisk. Hefur aðferðin hlotið nafnið Quality Index Method, QIM eða gæðastuðulsaðferðin á íslensku og hefur óðum verið að ryðja sér til rúms sem eitt helsta hjálpartæki við mat á fiski á ferskfiskmörkuðum í N-Evrópu. Þykir aðferðin hafa reynst afar vel og m.a. auðveldað mjög rafræn viðskipti með fisk.

Á námsstefnunni mun Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Rf og verkefnisstjóri QIMCHAIN, kynna útgáfu skynmatshandbókar sem nýkomin er út á fjölda tungumála. Auk þess munu aðilar frá samtökum fiskmarkaða í Hollandi fjalla um viðskipti á netinu með óséðan fisk og fulltrúi hins stóra fiskmarkaðar í Zeebrugge í Belgíu mun lýsa reynslunni sem þeir hafa af notkun QIM.

Þeir sem leið eiga um Brussel í næstu viku eru eindregið hvattir til að heimsækja sjávarútvegssýninguna, sem er ein af þeim stærri sem haldnar eru. Þeim sem áhuga hafa á að taka þátt í námsstefnunni er bent á að betra er að skrá sig fyrirfram. Námsstefnan verður haldin í Buro & Design Centre (Heizel Esplanade 1, Brussels), beint á móti sýningarhöllinni.

Dagskrá námstefnunnar og skráning


Fréttir