• Námskeið í Billingsgate markaðinum, London

Rf leiðandi í kennslu á ferskfisksmati í Evrópu

2.7.2004

Útflutningur á fersku sjávarfangi hefur aukist jafn og þétt á s.l. árum og líkti Morgunblaðið í gær þessari aukningu við sprengingu. Bretland er ennþá mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir og þar eru neytendur kröfuharðir, enda löng hefð fyrir fiskneyslu þar í landi. Billingsgate market í London er stærsti fiskmarkaður í Bretlandi og þar kynntu menn sér nýlega kosti þess að nota gæðastuðulsaðferðina QIM.

Eins og áður hefur komið fram er QIM samræmd aðferð við mat á ferskum fiski sem verið er að kynna í Evrópu um þessar mundir. Kynningarátakið nefnist QIMCHAIN og er Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Rf, verkefnisstjóri þess. Má því með nokkru sanni segja að Rf sé leiðandi í kynningu aðferðar til að meta ferskan fisk í Evrópu.

Emilía, ásamt öðrum, hélt nýlega kynningarnámskeið í Billingsgate Seafood Training School, en skólinn er hluti af Billingsgate markaðinum. Á námskeiðinu, sem aðilar frá fiskmörkuðum, smásölum, eftilitsaðilum og matvælarannsóknarfyrirtækjum í Bretlandi sóttu, var QIM aðferðin kynnt og þátttakendum m.a. kennt að nota aðferðina við mat á misferskum þorsk og kola.

Þess má geta að hinn stóri fiskmarkaður Fishgate í Hull, sem er að stórum hluta í eigu Íslendinga, hefur látið þjálfa starfsfólk sitt í notkun gæðastuðulsaðferðarinnar við mat á ferskum fiski.  Ýmsir stórir fiskmarkaðir, s.s. í Belgíu og Hollandi, hafa einnig tekið upp þessa aðferð.
Fréttir